Innlent

Ríkis­stjórnin kynnti af­léttinga­á­ætlun sam­komu­tak­­markana

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Afléttingaáætlun vegna sóttvarnaaðgerða var kynnt á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar fyrr í dag.
Afléttingaáætlun vegna sóttvarnaaðgerða var kynnt á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar fyrr í dag. Vísir/Vilhelm

Ríkisstjórnin mun í dag kynna svokallaða afléttingaáætlun vegna samkomutakmarkana þar sem greint verður frá því með hvaða hætti stendur til að aflétta innanlandstakmörkunum.  

Áætlunin verður kynnt að loknum ríkisstjórnarfundi, sem fer fram í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu. 

Fundurinn hefst samkvæmt reglulegri áætlun klukkan hálf tíu en að loknum fundinum hefur verið boðað til blaðamannafundar í Safnahúsinu klukkan 11:30. Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis verður að sjálfsögðu á staðnum til að fylgjast með framvindu fundarins. 

Uppfært 12:15. Fundinum er lokið. Hægt er að lesa framvindu hans í textavaktinni hér að neðan. 

Gerðar voru breytingar á reglum um sóttkví á mánudag sem eru talsverðar. Nú þarf fólk, sem útsett er fyrir smitum utan heimilis, ekki að sæta sóttkví heldur fer það í smitgát. Þá eru börn og unglingar algerlega undanþegin reglum um smitgát. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sendi Willum Þór Þórssyni heilbrigðisráðherra minnisblað með tillögum sínum um afléttingar á mánudag. Mátti þar finna ýmsar tillögur í ljósi stöðu faraldursins. Þórólfur sagði meðal annars að hann teldi að hefja þyrfti afléttingar með einföldun á leiðbeiningum um sóttkví og sýnatökum og í framhaldi létta á samfélagslegum aðgerðum. 

Enn er í gildi neyðarstig á Landspítala en það hefur verið í gildi síðan 28. desember. Það má að miklu leyti rekja til fjarveru starfsmanna vegna einangrunar og hafa ýmsar einkaheilbrigðisstofnanir,eins og Klíníkin og Orkuhúsið, verið fengnar til að leggja hönd á plóg á spítalanum af Sjúkratryggingum Íslands. 

Fram kemur í Morgunblaðinu í morgun að samkvæmt heimildum blaðsins stefni stjórnendur spítalans á að reyna að aflétta neyðarstigi af Landspítala í næstu viku. Í gær voru 219 starfsmenn spítalans í einangrun. 

Samkomutakmarkanir sem nú eru í gildi renna út 2. febrúar, eða miðvikudag í næstu viku, en þá hefur verið tíu manna samkomutakmark síðan 15. janúar. Íslendingar hafa nú búið við einhverjar takmarkanir frá 25. júlí, en  þá höfðu engar samkomutakmarkanir verið í gildi í einn mánuð. 


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.
Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.