Fyrirtækið kemur að ótilgreindri kvikmynd sem heimsfrægi leikarinn Tom Cruise og leikstjórinn Doug Liman vinna að og hefur SEE ráðið Axiom Space til að byggja viðbótina, sem á að innihalda íþróttaleikvang auk kvikmyndavers.
Það er samkvæmt tilkynningu sem SEE sendi út í síðustu viku. Blaðamaður Variety segir þó að áætlanir um þetta kvikmyndaver í geimnum ekki tengjast kvikmynd Cruise með beinum hætti.
Sjá einnig: Yfirmaður NASA til í að Cruise taki upp kvikmynd í geimstöðinni
Forsvarsmenn SEE vonast til þess að kvikmyndaverið verði skotið út í geim á seinni hluta ársins 2024. Axiom Space ætlar að gera nýja geimstöð á braut um jörðu og stendur til að byggja hana í fyrstu sem hluta af Alþjóðlegu geimstöðinni. Þar á að tengja kvikmyndatökuverið við nýja geimstöð Axiom og Alþjóðlegu geimstöðina.
Þegar/ef geimstöð Axiom verður losuð frá Alþjóðlegu geimstöðinni, sem gæti gerst árið 2028, á kvikmyndaverið að vera stór hluti hinnar nýju geimstöðvar. Forsvarsmenn SEE segja að ekki eigi eingöngu að nota þennan hluta geimstöðvarinnar til kvikmyndatöku heldur verði einnig hægt að taka upp tónlist, íþróttaviðburði og sjónvarpsefni þar.
Lítið að frétta af mynd Cruise
Tom Cruise mun hefja tökur á Mission: Impossible 8 á næstunni í Suður-Afríku og stendur til að hans næsta verk verði að taka upp kvikmynd í geimnum. Lítið sem ekkert er vitað um þá mynd en Doug Liman og Christopher McQuarrie eru að skrifa handrit myndarinnar.
Samkvæmt heimildum Variety verður bróðurpartur myndarinnar tekinn upp á jörðu niðri og þá eigi einnig að taka hluta hennar upp í eldflaug.