Erlent

Koma bleyjuklæddir heim vegna salernisbilunar

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
McArthur og félaga hefur varla grunað þegar þau voru að leggja í hann að þau myndu snúa aftur í bleyjum.
McArthur og félaga hefur varla grunað þegar þau voru að leggja í hann að þau myndu snúa aftur í bleyjum. Getty/Aubrey Gemignani

Geimfarar sem nú dvelja um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni en hyggja á heimferð á morgun neyðast til að vera með bleyju á leiðinni heim, þar sem salernið um borð í SpaceX farinu sem mun flytja þá til jarðar er bilað.

Geimfarinn Megan McArthur segir stöðu mála ekki hina bestu en viðráðanlega. Hún og ferðafélagar hennar þrír munu verja 20 klukkustundum í farinu, frá því að lokað verður á þau í geimstöðinni og þar til þau lenda í sjónum á mánudagsmorgun.

„Geimferðir fela í sér margar litlar áskoranir,“ sagði McArthur á blaðamannafundi. „Þetta er ein þeirra sem við þurfum glíma við í okkar ferð. Þannig að við höfum ekki of miklar áhyggjur af þessu.“

Eftir mikil fundarhöld á föstudag var ákveðið að láta verða af heimferð geimfaranna, jafnvel þótt þeir sem eiga að leysa þá af verði ekki komnir um borð í geimstöðina. Ferð þeirra hefur nú þegar verið frestað um viku vegna veðurs og af ótilgreindum heilsufarsástæðum.

McArthur og félagar eru sagðir hafa orðið varir við salernisvandamálið þegar þau losuðu klæðningu og fundu hlandpoll þar undir. Þetta mun ekki vera í fyrsta sinn sem hland fer þangað sem það á ekki heima um borð í geimfari frá SpaceX en það gerðist líka í ferð í september.

Hlandlekinn gerir það að verkum að geimfararnir munu þurfa að klæðast því sem NASA lýsir sem „rakadrægum undirfatnaði“. 

Guardian greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.