Kórónuveirufaraldurinn hefur haft ýmis áhrif á knattspyrnulið Englands sem og íþróttastarf almennt um heim allan. Vegna þess regluverks sem er nú við lýði í ensku úrvalsdeildinni hafa tvö félög ákveðið að kvarta yfir stærðar búningsklefa gestaliðsins á Brúnni.
The Telegraph greindi frá. Eftir kvartanir Liverpool og Brighton þurfti Chelsea að eyða tugum þúsunda punda í viðgerðir. Var klefinn uppfærður fyrir leik Chelsea og Tottenham Hotspur um síðustu helgi.
Liverpool and Brighton complaints force Chelsea to expand the away dressing-room at Stamford Bridge #CFC https://t.co/rTpaAJJpMU
— Matt Law (@Matt_Law_DT) January 24, 2022
Ástæðan fyrir kvörtunum Liverpool og Brighton – sem bæði heimsóttu Brúnna yfir jólatörnina – var sú að klefinn sé einfaldlega of lítill sem gerir það að verkum að ómögulegt sé að fylgja regluverki deildarinnar sökum kórónuveirunnar.
Búið er að leysa vandamálið með því að stækka klefann en það kostaði fjölmiðlafólk aðstöðu sína á vellinum. Fjölmiðlafólk hefur nú hvorki skrifborð né aðgang að rafmagni er það vinnur vinnu sína.
Hvort þessi auknu þægindi mótherja Chelsea muni hjálpa spilamennsku þeirra á Brúnni kemur í ljós með tíð og tíma en það gerði lítið fyrir Tottenham sem tapaði 2-0 um liðna helgi.