Íslenski boltinn

Alexander Helgi ekki með Breiða­bliki í sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Helgi mun ekki spila á Íslandi næsta sumar.
Alexander Helgi mun ekki spila á Íslandi næsta sumar. Vísir/Bára Dröfn

Miðjumaðurinn Alexander Helgi Sigurðarson mun ekki spila með Breiðabliki í sumar. Hann hefur samið við sænska þriðju deildarfélagið Vasalunds um að leika með liðinu meðan hann stundar nám í Svíþjóð.

Alexander Helgi var lykilmaður í silfurliði Breiðabliks á síðustu leiktíð en eftir tímabilið sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson – þjálfari Breiðabliks – það væri óvíst hvort Alexander Helgi yrði áfram hjá félaginu þar sem hann var að fara í nám erlendis.

Nú hefur hlaðvarpið Dr. Football staðfest að leikmaðurinn sé á leið til Vasalund sem leikur í þriðju efstu deild þar í landi. Liðið féll úr B-deildinni á síðustu leiktíð.

Alexander Helgi er 25 ára gamall og hefur spilað með Víking Ólafsvík sem og uppeldisfélagi sínu Breiðablik á ferlinum. Hann á að baki 95 leiki í deild, bikar og Evrópu.

Breiðablik er þó ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að miðjumönnum en frá því að tímabilinu lauk hafa þeir Ísak Snær Þorvaldsson og Dagur Dan Þórhallsson gengið til liðs við Kópavogsliðið.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.