Erlent

Notuðu dróna til að sprengja olíubíla í loft upp

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá flugvellinum í Abu Dhabi. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá flugvellinum í Abu Dhabi. Myndin tengist fréttinni ekki beint. EPA/CHRISTOPHE PETIT TESSON

Þrír olíuflutningabílar sprungu í morgun í loft upp á flugvellinum í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Bílarnir eru sagðir hafa verið sprengdir í loft upp með litlum drónum sem flogið var að þeim.

Hútar, uppreisnarmenn í Jemen, segjast bera ábyrgð á árásinni, sem mun þó ekki hafa valdið miklum skaða, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Lögreglan í Abu Dhabi segir að verið sé að rannsaka sprengingarnar. Hins vegar sé útlit fyrir að drónar hafi valdið þeim. Sprengingarnar áttu sér stað á byggingarsvæði á flugvellinum en samkvæmt fyrstu fregnum dóu þrír og sex eru sagðir særðir.

Sameinuðu arabísku furstadæmin hafa tekið þátt í þátt í átökunum í Jemen og þá gegn Hútum, sem hafa barist gegn ríkisstjórn landsins frá árinu 2015. Sádi-Arabía leiðir bandalag ríkja sem stendur við bakið á ríkisstjórninni.

Í samtali við AP segir talsmaður Húta að þeir hafi gert árásina en vildi lítið annað segja annað en að von væri á yfirlýsingu. Hútar hafa áður beitt drónum við árásir í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og í Sádi-Arabíu.

Undanfarnar vikur virðist sem stjórnarher Jemen og bandamönnum þeirra hafi gengið vel gegn Hútum og er herinn sagður hafa sótt fram víða.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×