Man City með þrettán stiga for­skot þökk sé De Bru­yne

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kevin De Bruyne fagnar sigurmarki sínu með Bernardo Silva.
Kevin De Bruyne fagnar sigurmarki sínu með Bernardo Silva. Matt McNulty/Getty Images

Mikil spenna var fyrir leik dagsins á Etihad-vellinum í Manchester þar sem tvö efstu lið Englands mættust. Heimamenn voru mun betri í upphafi leiks en þeim tókst ekki að komast í gegnum þétta vörn gestanna.

Fór það svo að staðan var enn markalaus í hálfleik og það var helst að frétta að Marcos Alonso hafi haldið út eftir að fá gult spjald strax á sjöundu mínútu.

Síðari hálfleikur var nokkuð svipaður þeim fyrri. Heimamenn sóttu og sóttu en Chelsea beið í skotgröfunum. Þegar 20 mínútur lifðu leiks braust stíflan. Kepa Arrizabalaga, markvörður Chelsea, hreinsaði þá upp völlinn er Phil Foden pressaði hann stíft.

Aymeric Laporte vann boltann í loftinu og kom honum á João Cancelo sem fann De Bruyne. Það var langt á milli lína hjá Chelsea svo De Bruyne ákvað að vaða að marki. Hann komst alla leið upp að D-boga vítateigs gestanna áður en þeir settu pressu á miðjumanninn öfluga.

Í þann mund lét hann vaða á markið og söng boltinn í netinu. Frábært hlaup, gott skot en boltinn var langt frá því út við stöng og spurning hvort Kepa hefði átt að gera betur.

Staðan orðin 1-0 og reyndust það lokatölur. Heimamenn voru töluvert nær að bæta við marki heldur en gestirnir að jafna. Var þetta 12. sigur Manchester City í röð í ensku úrvalsdeildinni.

Sigurinn þýðir að Manchester City er með 56 stig á toppi deildarinnar á meðan Chelsea er í 2. sæti með 43 stig. Liverpool er svo með 42 stig í 3. sæti en á tvo leiki til góða.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.