Enski boltinn

Markvörður Shrewsbury skammar stuðningsmennina fyrir níðsöngva um Hillsborough

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Harry Burgoyne var ekki sáttur með stuðningsmenn síns liðs.
Harry Burgoyne var ekki sáttur með stuðningsmenn síns liðs. getty/James Baylis

Markvörður Shrewsbury Town skammaði þá stuðningsmenn liðsins sem sungu níðsöngva um Hillsborough slysið eftir leikinn gegn Liverpool í 3. umferð ensku bikarkeppninnar í gær.

Harry Burgoyne var á varamannabekknum hjá C-deildarliðinu sem komst yfir á 27. mínútu með marki Daniels Udoh. Sjö mínútum síðar jafnaði hinn sautján ára Kaide Gordon fyrir Liverpool sem bætti svo þremur mörkum við.

Eftir leikinn birtist myndband af nokkrum stuðningsmönnum Shrewsbury syngja níðsöngva um þá 96 sem létust í Hillsborough slysinu 1989. Burgoyne sendi þessum stuðningsmönnum tóninn á Twitter.

„Þessir stuðningsmenn ættu að skammast sín. Liverpool sýndi ekkert nema virðingu í dag. Þetta er viðbjóðslegt, algjörlega viðbjóðslegt! Setjið þá í lífstíðarbann,“ skrifaði Burgoyne á Twitter.

Burgoyne, sem er 25 ára, er uppalinn hjá Wolves en hefur leikið með Shrewsbury síðan 2020. Shrewsbury er í 15. sæti C-deildarinnar.


Enska bikarkeppnin, FA Cup, er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. FA Cup er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.