Rannsókn Letitia James, ríkissaksóknara, er ekki glæparannsókn og finni hún vísbendingar um að brot hafi verið framin getur hún höfðað mál. Umdæmasaksóknari Manhattan er þó einnig með fyrirtæki Trumps til rannsóknar en sú rannsókn er glæparannsókn og kemur Letitia James einnig að henni.
Hún vill einnig koma höndum yfir skjöl frá fyrirtækinu vegna rannsóknarinnar sem snýr meðal annars að því hvernig Trump verðmat eignir sínar. Rætt var við Eric Trump vegna rannsóknarinnar í október 2020.
Báðar rannsóknirnar á Trump og fyrirtæki hans beinast að því hvernig Trump hefur verðmetið eignir sínar í gegnum árin. Þær snúa að því hvort að Trump hafi blekkt banka og skattyfirvöld um raunveruleg verðmæti eigna fyrirtækisins. Hann hafi ýmist ýkt virði þeirra til að fá hagstæðari lán eða gert lítið úr þeim til að komast hjá skattgreiðslum.
Sjá einnig: Nýr ákærudómstóll skoðar sönnunargögn í máli Trump
Stefnurnar gegn þremenningunum voru opinberaðar í gær, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar, en lögmenn Trumps kröfðust þes í gær að þær yrðu felldar niður því þær væru „fordæmalausar“ og brytu gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.
Lögmenn Trumps segja að James geti ekki komið að tveimur mismunandi rannsóknum gegn fyrirtæki forsetans fyrrverandi. Þeir saka hana um að reyna að verða sér út um vitnisburð í þessu máli til að nota gegn Trump í glæparannsókninni, samkvæmt frétt New York Times.
Mismunandi reglur gilda fyrir vitnisburði í málum sem þessum en í rannsókn James njóta þremenningarnir ekki sömu réttinda varðandi vitnisburð og í glæparannsókninni. Lögmennirnir segja James reyna að stytta sér leið í gegnum dómskerfið.
Lögmenn Trumps hafa höfðað mál gegn James með því markmiði að stöðva rannsókn hennar á þeim grundvelli að hún sé pólitísks eðlis og brjóti á réttindum skjólstæðings þeirra.