Erlent

Minnst fjórir létust í röð skotárása í Denver

Eiður Þór Árnason skrifar
Lögregla stendur fyrir utan Belmar-verslunarmiðstöðina í Lakewood þar sem hún segir að árásarmaðurinn hafi verið skotinn til bana.
Lögregla stendur fyrir utan Belmar-verslunarmiðstöðina í Lakewood þar sem hún segir að árásarmaðurinn hafi verið skotinn til bana. Getty/Michael Ciaglo

Minnst fjórir létust í gær í Koloradó í Bandaríkjunum eftir röð skotárása. Að sögn lögreglu er grunaði árásarmaðurinn látinn en einn lögregluþjónn særðist í árásunum.

Skotum var hleypt af á fjórum stöðum í og við Denver og átti fyrsta skotárásin sér stað rétt eftir klukkan 17 að staðartíma. Að sögn yfirvalda voru þrír einstaklingar þá skotnir. Einn karlmaður var særður og tvær konur létust af sárum sínum.

Á öðrum stað var annar karlmaður skotinn til bana og á þeim þriðja var skotum hleypt af en ekki er vitað til þess að neinn hafi særst. Lögreglan í Denver bar þá kennsl á ökutæki sem tengdist árásunum og elti ökumanninn.

Hótelstarfsmaður fluttur á sjúkrahús

Árásarmaðurinn flúði til borgarinnar Lakewood eftir að hann olli miklum skemmdum á lögreglubíl en rétt fyrir klukkan 18 barst lögreglu þar í borg tilkynning um að hleypt hafi verið af skotum inn í húsakynnum fyrirtækis. Einn aðili var úrskurðaður látinn á staðnum, að sögn lögreglu.

Þegar lögregla fann bifreið árásarmannsins hóf hann að skjóta í átt að lögreglu sem svaraði í sömu mynt. Eltingaleikur hófst og er maðurinn meðal annars grunaður um að hafa skotið starfsmann hótels þar sem hann reyndi að leita skjóls.

Eftir að árásarmaðurinn flúði þaðan mætti hann lögregluþjóni sem hann skaut. Sá er nú á sjúkrahúsi. Í kjölfarið gengu skot milli mannsins og annarra lögregluþjóna sem endaði að sögn lögreglu með því að hinn grunaði var skotinn til bana á staðnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×