Enski boltinn

Lögreglan biðst afsökunar á að hafa orðið fótboltamanni að bana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dalian Atkinson kom víða við á ferlinum en átti líklega sín bestu ár hjá Aston Villa.
Dalian Atkinson kom víða við á ferlinum en átti líklega sín bestu ár hjá Aston Villa. getty/Paul Marriott

Lögreglan í West Mercia hefur sent skriflega afsökunarbeiðni til fjölskyldu fótboltamannsins fyrrverandi Dalians Atkinson, hálfu ári eftir að lögreglumaður var sakfelldur fyrir að hafa orðið honum að bana.

Atkinson lést 15. ágúst 2016 eftir að lögreglumaðurinn Benjamin Monk skaut hann með rafbyssu í rúmlega hálfa mínútu og sparkaði tvisvar í höfuð hans meðan hann lá í jörðinni. Atkinson var 48 ára þegar hann lést.

Í júní á þessu ári var Monk sakfelldur fyrir að hafa orðið Atkinson að bana. Hann varð þar með fyrsti lögreglumaðurinn í þrjá áratugi sem var sakfelldur fyrir að hafa orðið manni að bana í varðhaldi.

Fjölskylda Atkinsons var afar ósátt við hversu langan tíma það tók að dæma Monk. Þau sögðu jafnframt að málið sýndi þörfina fyrir breytingu á því hvernig lögreglan og réttarkerfið kæmi fram við svart fólk.

Pippa Mills, lögreglustjóri í West Mercia, hefur nú sent fjölskyldu Atkinsons bréf þar sem hún biðst innilegrar afsökunar á gjörðum Monks sem hún segir að séu ekki í neinum takti við það sem lögreglan stendur fyrir og hafi skiljanlega rýrt trausts almennings á störfum hennar.

„Ég get ekki ímyndað mér sársaukann sem þið hafið upplifað og hvernig tafirnar á málarekstrinum hafi aukið á vanlíðan ykkar. Þið hafið sýnt mikinn styrk og mikla reisn undanfarin fimm ár,“ sagði meðal annars í bréfi Mills til fjölskyldunnar.

Atkinson er hvað þekktastur fyrir tíma sinn hjá Aston Villa. Hann lék 85 leiki fyrir félagið og skoraði í þeim 25 mörk. Atkinson varð deildabikarmeistari með Villa 1994 og skoraði í úrslitaleiknum gegn Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×