Enski boltinn

Út­skýrði af hverju hann réði sál­fræðing: „Leik­menn þurfa ein­hvern til að tala við“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ralf Rangnick ræðir við Mason Greenwood.
Ralf Rangnick ræðir við Mason Greenwood. EPA-EFE/PETER POWELL

Ralf Rangnick var ekki lengi að láta til sín taka sem þjálfari Manchester United. Eitt af hans fyrstu verkum var að ráða íþróttasálfræðing og hinn 63 ára gamli Þjóðverji telur að ekki sé langt í að það verði vaninn hjá stærstu liðum heims.

Mikil umræða skapaðist í kringum ráðningu hins 46 ára gamla Sascha Lense en það kom Rangnick ekki á óvart.

„Ég veit að mörg félög í Þýskalandi eru ekki með sálfræðinga á sínum snærum. Fyrir mér er það samt mjög rökrétt,“ sagði Rangnick í viðtali við Sky Sports um málið.

„Öll félög eru með mismunandi sérfræðingar fyrir markverði, varnarmenn, miðjumenn og sóknarmenn, til að auka líkamlegt atgervi og hámarka frammistöður. Sum félög eru með fleiri sérfræðinga en leikmenn. Allir þessir aðilar nota höfuðið – heilann og hugann – því er rökrétt að vera með sérfræðing í þeim efnum.“

„Um það snýst þetta allt, að hjálpa leikmönnum að hugsa um réttu hlutina á réttum augnablikum frekar en ranga hluti. Til að leikmenn taki framförum þá þarf heili þeirra að vera tilbúinn í að hjálpa líkamanum svo þeir nái sem bestum árangri.“

„Þetta er allt hluti af púsluspilinu. Það er mikilvægt að bestu félögin – og Manchester United er eitt stærsta félag í heimi – séu með besta mögulega starfsfólkið. Allavega þurfa öll þessi litlu púsl að vera til staðar.“

„Leikmenn eru undir gríðarlegu álagi á þessu stigi, stundum þurfa þeir einfaldlega einhvern til að tala við sem er ekki endilega hluti af þjálfarateyminu. Það er mikilvægt að leikmenn geti talað við hlutlausan aðila, sérfræðing sem getur aðstoðað þá eða bara hlustað á það sem þeir hafa að segja,“ sagði Rangnick að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×