Erlent

Fara í hart gegn öfga­hópum vegna á­rásarinnar á þing­húsið

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðlimir Oath Keepers fyrir utan þinghúsið þann 6. janúar.
Meðlimir Oath Keepers fyrir utan þinghúsið þann 6. janúar. AP/Manuel Balce Ceneta

Ríkissaksóknari Washington DC hefur höfðað mál gegn öfgahópunum Proud Boys og Oath Keepers vegna árásarinnar á þinghús Bandaríkjanna þann 6. janúar. Karl A Racine ætlar að nota lög sem samin voru til að sporna gegn Ku Klux Klan til að krefjast bóta frá samtökunum vegna þess skaða sem unninn var í árásinni og vegna árása á lögregluþjóna þann dag.

Samkvæmt frétt Washington Post höfðaði Racine málið í dag. Miðillinn hefur eftir lögmanni eins af forsvarsmönnum Proud Boys að lögsóknin líkist draumórum. Ofbeldisfullt fólk hafi tekið þátt í árásinni en það hafi ekki tilheyrt Proud Boys eða Oath Keepers.

WP bendir á að í síðasta mánuði hafi dómsmál gegn samtökum rasista og öðrum haturshópum vegna aðkomu þeirra að óeirðum í Charlottesville árið 2017. Þá hafi skilaboð manna á milli og færslur þeirra á samfélagsmiðlum verið notaðar til að byggja mál gegn þeim og sýna fram á hvernig þeir undirbjuggu sig fyrir ofbeldi.

Það mál var höfðað gegn sumum af þekktustu leiðtogum bandaríska hægriöfgamanna eins og Jason Kessler, aðalskipuleggjanda samkomunnar sem gekk undir heitinu „Sameinum hægrið“ og Richard Spencer, sem er eignaður heiður af því að finna upp á hugtakinu „hitt hægrið (e. alt right)“ sem ávarpaði samkomuna.

Lögsókn Racine beinist bæði gegn samtökunum tveimur og fjölmörgum af þeirra frægustu meðlimum en margir þeirra hafa þegar verið ákærðir vegna árásinar á þinghúsið. Markmið saksóknarans er að brjóta samtökin á bak aftur, fjárhagslega séð.

Í samtali við Washington Post sagðist Racine telja að skaðabæturnar þyrftu að vera miklar. Ef samtökin og mennirnir yrðu gjaldþrota vegna lögsóknarinnar væri það fínt.


Tengdar fréttir

Þáttastjórnendur Fox News vildu að forsetinn gripi inn í óeirðirnar

Þrír þekktir þáttastjórnendur hjá Fox News sendu Mark Meadows, sem þá var hægri hönd Donald Trump í Hvíta húsinu, skilaboð 6. janúar síðastliðinn og biðluðu til hans um að fá forstann til að hvetja fólk til að hverfa frá þinghúsinu í Washington.

Kosningastarfsmenn kæra vegna falsfrétta í Georgíu og hótana

Tveir kosningastarfsmenn í Georgíu í Bandaríkjunum hafa höfðað mál gegn hægri-öfgasíðunni Gateway Pundit vegna falsfrétta á vefnum um að þær hafi framið kosningasvik í forsetakosningunum í fyrra. Fréttaflutningur miðilsins hafi leitt til þess að þær hafi verið ofsóttar og áreittar.

„Seiðmaðurinn“ dæmdur í rúmlega þriggja ára fangelsi

Jacob Chansley, sem gengur undir nafninu Qanon seiðmaðurinn, hefur dæmdur í 41 mánaðar fangelsi fyrir aðkomu hans að árásinni á þinghús Bandaríkjanna í janúar. Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna hafði farið fram á þunga refsingu til að setja fordæmi í aðdraganda fleiri dómsmála gegn fólki sem tók þátt í árásinni.

Trump skilur að stuðningsmenn sínir hafi viljað hengja Pence

Það var heilbrigð skynsemi hjá stuðningsmönnum Donalds Trump að kyrja um að þeir ætluðu sér að hengja Mike Pence, varaforseta, þegar þeir réðust á bandaríska þinghúsið í janúar, að mati fyrrverandi Bandaríkjaforsetans.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×