Erlent

Norð­menn herða á landa­mærum og biðla til fólks að hætta handa­böndum

Atli Ísleifsson skrifar
Heilbrigðisráðherra Noregs hefur biðlað til fólks að hætta handaböndum til að draga úr útbreiðslu veirunnar.
Heilbrigðisráðherra Noregs hefur biðlað til fólks að hætta handaböndum til að draga úr útbreiðslu veirunnar. EPA

Norsk stjórnvöld kynntu í morgun hertar reglur á landamærum sem fela í sér að frá 26. nóvember munu allir þeir sem ferðast til landsins að skrá sig á síðunni entrynorway.no.

Krafa um skráningu nær bæði til Norðmanna og útlendinga, bólusettra sem óbólusetta, en útbreiðsla kórónuveirunnar hefur verið mikil í Noregi sem og í öðrum ríkjum Evrópu síðustu vikurnar.

Norskir fjölmiðlar segja frá því að skráningin geti farið fram í fyrsta lagi þremur sólarhringum áður en viðkomandi kemur til landsins.

„Þegar þú skráir þig færðu staðfestingu senda sem þú verður svo að sýna lögreglu við komuna til landsins. Þér verður sömuleiðis skylt að geta sýnt fram á sérstakt vottorð, fari lögregla fram á slíkt,“ sagði dómsmálaráðherrann Emilie Enger Mehl á fréttamannafundi í morgun.

Norðmenn gera sömuleiðis ríkari kröfur þegar kemur að sóttkví. „Skyldan breytist á þann veg að hún nær nú til allra, sama hvaðan maður er að koma og getur ekki sýnt fram á að maður sé fullbólusettur eða hafi fengið Covid-19 síðasta hálfa árið,“ sagði heilbrigðisráðherrann Ingvild Kjerkol.

Kjerkol biðlaði sömuleiðis til þjóðarinnar að halda kyrru fyrir heima, finni fólk fyrir minnstu einkennum, og sömuleiðis að hætta öllum handaböndum. „Það kostar okkur lítið og dregur úr útbreiðslu,“ sagði Kjerkol á fundinum í morgun.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×