Harvey Barnes kom gestunum yfir eftir 14. mínútna leik eftir að Patson Daka stakk boltanum inn fyrir vörn heimamanna. Konsa jafnaði metin aðeins þremur mínútum síðar eftir atgang í vítateig Leicester í kjölfar aukaspyrnu Douglas Luiz inn á teig.
Staðan orðin 1-1 og þannig var hún er flautað var til loka fyrri hálfleiks þó svo að Jacob Ramsey hafi komið knettinum í netið undir lok fyrri hálfleiks. Markið dæmt af vegna brots í aðdragandanum.
Þegar níu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik flengdi John McGuinn boltanum fyrir markið úr hornspyrnu og Konsa stangaði í netið, staðan orðin 2-1 og reyndust að lokatölur leiksins.
Sigurinn kemur Villa í 19 stig, líkt og Leicester, en lærisveinar Stevens Gerrard eru með betri markatölu og sitja því í 10. sæti á meðan Leicester er sæti neðar.