Verið er að rétta yfir Maxwell, sem er 59 ára gömul, í New York en hún var ákærð fyrir að hafa útvegað Epstein ungar stúlkur sem hann misnotaði og hefur hún einnig verið sökuð um að taka þátt í misnotkuninni. Hún er sökuð um að hafa fært Epstein allt að fjórtán ára gamlar stúlkur til að misnota í húsnæði hans víðsvegar um Bandaríkin og í London milli 1994 til 1997.
Epstein svipti sig lífi í fangelsi þann 10. ágúst 2019, þá 66 ára gamall. Það var eftir að hann var ákærður fyrir mansal og önnur brot.
Sjá einnig: Sagði Maxwell gerða að blóraböggli fyrir slæma hegðun Epstein
Juan Alessi vann fyrir Epstein milli 1990 og 2002. Hann sagði í dag að Maxwell hefði fyrst komið inn í myndina árið 1991. Hann sagði hana hafa kynnt sig sem lafði hússins, þó hún væri kærasta Epsteins. Alessi sagði Maxwell hafa skipað sér fyrir og Epstein hafi talað minna og minna við sig sjálfur, samkvæmt frétt Sky News.
Sagði Maxwell fylgja Epstein um hvert fótmál
Alessi sagði einnig að Maxwell hafði sagt honum að horfa ekki í augun á Epstein og að tala ekki við hann nema Epstein talaði fyrst við hann. Þá sagði hann að Maxwell hefði fylgt Epstein um hvert fótmál og nánast alltaf verið með honum. Hann sagði hana í raun hafa haft mikla stjórn á lífi Epsteins.
Saksóknarar segja að Maxwell hafi skrifað 58 blaðsíðna reglubók fyrir starfsfólk Epsteins, eftir að Alessi hætti. Í bókinni stóð:
„Munið að þið sjáið ekkert, heyrið ekkert, segið ekkert nema til að svara spurningum til ykkar.“
Þar stóð einnig að starfsfólkið ætti að virða einkalíf Epsteins.
Réttarhöldin gegn Maxwell hafa staðið yfir í fjóra daga en búist er við því að þau muni standa yfir næstu vikurnar. Hún segist ekki hafa framið brotin sem hún er sökuð um.
Verði hún fundin sek gæti Maxwell verið dæmd í lífstíðarfangelsi.