Fótbolti

Inter upp í annað sætið á meðan Mourinho sá gult í tapi Roma

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Mourinho á hliðarlínunni í kvöld.
Mourinho á hliðarlínunni í kvöld. Fabio Rossi/Getty Images

Tveimur af fjórum leikjum kvöldsins í Serie A, ítölsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu, er nú lokið. Ítalíumeistarar Inter unnu 2-0 heimasigur á Spezia á meðan lærisveinar José Mourinho í Roma töpuðu 1-0 fyrir Bologna á útivelli.

Inter voru töluvert sigurstranglegri fyrir leik og það kom því lítið á óvart þegar ítalski miðjumaðurinn Roberto Gagliardini kom þeim yfir á 36. mínútu eftir sendingu argentíska framherjans Lautaro Martinez.

Reyndist það eina mark fyrri hálfleiks og staðan því 1-0 er flautað var til loka fyrri hálfleiks. Þegar tæp klukkustund var liðin af leiknum fengu heimamenn vítaspyrnu, Martinez fór á punktinn og kom Inter 2-0 yfir.

Fleiri urðu mörkin ekki og nokkuð öruggur sigur meistaranna staðreynd. Inter er nú í 2. sæti deildarinnar með 35 stig eftir 15 leiki. Napoli trónir á toppnum með stigi meira og leik til góða, þá getur AC Milan náð öðru sætinu með sigri síðar í kvöld.

Sænski miðjumaðurinn Mattias Svanberg tryggði Bologna 1-0 sigur á Roma með þrumuskoti þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. 

Ásamt því að gera fjölda skiptinga til að reyna jafna metin þá nældi José Mourinho, þjálfari Roma, sér í gult spjald þegar tíu mínútur voru til leiksloka.

Allt kom þó fyrir ekki og Bologna vann leikinn með einu marki gegn engu. Roma er því sem fyrr í 5. sæti með 25 stig á meðan Bologna er komið upp í 8. sæti með aðeins stigi minna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.