Erlent

Verður fyrsta konan til að gegna em­bætti for­seta í Hondúras

Atli Ísleifsson skrifar
Xiomara Castro hefur tvívegis áður boðið sig fram til forseta á síðustu árum.
Xiomara Castro hefur tvívegis áður boðið sig fram til forseta á síðustu árum. AP

Xiomara Castro mun taka við embætti forseta Mið-Ameríkuríkisins Hondúras. Stjórnarflokkurinn í landinu hefur þegar lýst yfir ósigri í forsetakosningunum sem fram fóru á sunnudaginn.

Castro var forsetaframbjóðandi vinstriflokksins Frelsisflokksins (Libre) og mælist sem stendur með um 20 prósent meira fylgi en helsti andstæðingur hennar, Nasry Asfura.

Sigur Castros bindur enda á tólf ára valdatíð hægriflokksins Þjóðarflokksins, en stjórnartíðin hefur einkennst af fjölda hneykslismála og ásakana um spillingu.

Castro mun taka við embætti forseta af Juan Orlando Hernández. Hann hefur verið sakaður um tengsl við undirheimana eftir að bróðir hans, Antonio, var dæmdur í fangelsi vegna fíkniefnasmygls til Bandaríkjanna.

Castro hefur heitið því að „draga Hondúras út úr hyldýpi „eiturlyfja-einræðis“ og spillingar“.

Eiginmaður Castros, Manuel Zelaya, var forseti landsins á árunum 2006 til 2009. Honum var bolað frá í kjölfar valdaráns og hefur Castro tvívegis boðið sig fram til forseta eftir að Zelaya var komið frá.

Talning stendur enn yfir og á landskjörstjórn enn eftir að lýsa formlega yfir sigurvegara.


Tengdar fréttir

Forseti Hondúras sakaður um að þiggja dóppeninga

Bandarískir saksóknarar segja að forseti Hondúras hafi þegið tugi þúsunda dollara frá þekktum fíkniefnabaróni í skiptum fyrir að héldi hlífiskildi yfir ólöglegri starfsemi hans um það leyti sem hann var kjörinn forseti.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.