Enski boltinn

Ætluðu að gefa Carrick allt að sex leiki áður en Rangnick glansaði í viðtalinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ralf Rangnick verður væntanlega kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Manchester United innan tíðar.
Ralf Rangnick verður væntanlega kynntur sem nýr knattspyrnustjóri Manchester United innan tíðar. getty/Alexander Shcherbak

Forráðamenn Manchester United ætluðu að láta Michael Carrick stýra liðinu í allt að sex fleiri leikjum áður en Ralf Rangnick glansaði í atvinnuviðtalinu sínu.

Fastlega er búist við því að Rangnick verði næsti knattspyrnustjóri United og stýri liðinu út tímabilið. Hann er núna yfirmaður knattspyrnumála hjá Lokomotiv Moskvu.

Carrick hefur stýrt United síðan Ole Gunnari Solskjær var sagt upp um helgina. Hann stýrði United í fyrsta sinn þegar liðið vann Villarreal, 0-2, í Meistaradeild Evrópu á þriðjudaginn.

Samkvæmt ESPN tjáðu forráðamenn United Carrick að hann myndi stýra liðinu í allt að sex fleiri leikjum. Félagið gaf sér rúman tíma til að finna nýjan stjóra en 18. desember var lokadagsetningin fyrir það.

Sú áætlun breyttist þegar Rangnick kom inn í myndina og heillaði forráðamenn United í atvinnuviðtalinu sínu. Þjóðverjinn var fyrst í stað efins um að fara til United en samþykkti eftir að honum var boðið ráðgjafahlutverk hjá félaginu að tímabilinu loknu. Talið er að Rangnick muni hjálpa United að velja eftirmann sinn.

Carrick stýrir United í leiknum gegn Chelsea í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn en Rangnick tekur svo við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×