Enski boltinn

„Þetta var stórt kvöld fyrir hann“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jadon Sancho fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Villarreal í Meistaradeildinni í gær.
Jadon Sancho fagnar marki sínu fyrir Manchester United á móti Villarreal í Meistaradeildinni í gær. EPA-EFE/Domenech Castello

Jadon Sancho komst loksins á blað með liði Manchester United í gærkvöld og fékk hrós úr mörgum áttum eftir leikinn.

Manchester United keypti Sancho á 73 milljónir punda frá Borussia Dortmund í haust en fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir þrjá mánuði.

Sancho náði sér ekki á strik undir stjórn Ole Gunnars Solskjær en skoraði strax í fyrsta leik eftir að Michael Carrick tók við stjórastarfinu.

„Jadon var stórkostlegur. Þú færð umbun ef þú leggur mikið á þig og ég var ánægður fyrir hans hönd. Við sáum allt aðra hlið á Sancho í kvöld,“ sagði Michael Carrick eftir leikinn.

„Þetta var stórt kvöld fyrir hann. Hann lagði sig virkilega fram í varnarleiknum og markið mun efla hann mikið í framhaldinu,“ sagði Carrick.

„Ég veit hversu mikið hann elskar að vera með boltann en það ánægjulegasta var vinnusemin og dugnaðurinn án boltans,“ sagði Carrick.

„Hann átti mikinn þátt í frammistöðu liðsins því hann sýndi öllum hvað menn þurftu að gefa í þetta,“ sagði Carrick og er hann bjartsýnn fyrir hönd enska landsliðsmannsins.

„Það er bara undir Jadon sjálfum komið hvað gerist næst því hann hefur alla hæfileika í heiminum,“ sagði Carrick.

Jadon Sancho skoraði ekki bara þetta eina mark því hann átti líka annað hættulegt skot, fór í flestar tæklingar af liðsfélögum sínum (4) og 92,5 prósent sendinga hans heppnuðust. Hann átti 24 heppnaðar sendingar á vallarhelmingi Villarreal.

Paul Scholes, fyrrum miðjumaður Manchester Unitedd, hrósaði líka Sancho eftir leik og sagði frammistöðuna vera þá bestu síðan hann kom til félagsins.

„Hann leit út fyrir að vera í betra formi og var besti leikmaður United liðsins. Hann er svo klár fótboltamaður,“ sagði Paul Scholes.

„Þeir þurfa að nota hann meira. Það er öðruvísi fyrir hann að spila í svona liði af því að hann hefur ekki fljúgandi bakvörð eins og hann hafði hjá Dortmund,“ sagði Scholes.

Leon Osman, fyrrum leikmaður Everton, hrósaði Sancho líka.

„Ef einhver átti skilið að skora þá var það Sancho. Hann var frábær,“ sagði Leon Osman.

„Það er erfitt að koma inn í nýtt lið með mikla væntingar. Hann bjó sér til fullt af tækifærum í kvöld,“ sagði Osman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×