Erlent

Spacey dæmdur til að greiða fram­leið­endum Hou­se of Cards fjóra milljarða

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Lítið hefur farið fyrir Spacey en í sumar sást til hans í Turin á Ítalíu þar sem hann var við tökur.
Lítið hefur farið fyrir Spacey en í sumar sást til hans í Turin á Ítalíu þar sem hann var við tökur. Getty/Stefano Guidi

Gerðardómur hefur ákveðið að leikarinn Kevin Spacey eigi að greiða MRC kvikmyndaverinu 31 milljón dala í skaðabætur fyrir að hafa brotið gegn ákvæðum samnings síns við framleiðslu á þáttunum House of Cards, sem sýndir voru á Netflix.

Lítið hefur sést til Spacey eftir að hann var sakaður um kynferðisbrot árið 2017 en hvað varðar framleiðslu hinna gríðarvinsælu House of Cards var hann sagður hafa sýnt ósæmilega hegðun við tökur með óvelkomnum snertingum og óviðeigandi ummælum.

MRC og Netflix brugðust að lokum við með því að skrifa persónu Spacey úr þáttunum, sem forsvarsmenn fyrirtækjanna segja hafa valdið þeim miklum fjárhagslegum skaða, þar sem búið var að leggja línur fyrir næstu og síðustu seríu þáttanna.

Aðilar samþykktu að fara með málið fyrir gerðardóm, sem hlýddi á vitnisburð fleiri en 20 einstaklinga í átta daga. Niðurstaða í málinu lá fyrir síðasta haust en í gær var hún gerð opinber þegar MRC fór þess á leit að dómstóll í Los Angeles staðfesti niðurstöðuna.

Spacey, sem hefur ávallt neitað sök, áfrýjaði málinu á sínum tíma en án árangurs.

Meðal þeirra sem hafa sakað Spacey um kynferðisbrot eru leikarinn Anthony Rapp, sem sagði Spacey hafa reynt að hafa við sig kynmök þegar Rapp var aðeins 14 ára gamall. Meint brot Spacey eru fleiri en hann hefur aldrei verið sakfelldur.

BBC greindi frá.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.