Erlent

Átti í heimiliserjum rétt áður en hann varð fimm að bana

Eiður Þór Árnason skrifar
Brotin barnakerra liggur á götu í miðbæ Waukesha þar sem Brooks keyrði í gegnum skrúðgönguna. 
Brotin barnakerra liggur á götu í miðbæ Waukesha þar sem Brooks keyrði í gegnum skrúðgönguna.  Ap/John Hart

Ökumaður sem varð fimm að bana þegar hann ók jeppa inn í jólaskrúðgöngu í Wisconsin í Bandaríkjunum í gær hafði nýlega átt í heimiliserjum þegar atvikið átti sér stað.

Talið er að minnst 48 hafi slasast þegar hinn 39 ára gamli Darrell Brooks Jr. keyrði í gegnum vegatálma og inn í mannþvöguna í borginni Waukesha.

Fram kom á blaðamannafundi lögreglu í kvöld að ekkert benti til þess að um hryðjuverkaárás væri að ræða eða að hinn grunaði hafi þekkt einhvern í skrúðgöngunni sem hann vildi slasa.

Telur lögregla að Brooks hafi verið einn að verki og hyggst ákæra hann fyrir að hafa myrt hina fimm látnu. Um er að ræða fjórar konur á aldrinum 52 til 79 ára og 81 árs karlmann.

Skaut í átt að bifreiðinni

Að sögn lögreglu hafði Brooks yfirgefið heimiliserjur skömmu áður en lögregla kom á vettvang. Hann hafi þó ekki verið eltur af lögreglu þegar hann keyrði inn í skrúðgönguna. Lögregluyfirvöld vildu ekki veita frekari upplýsingar um eðli heimiliserjanna. 

Eftir að ljóst var í hvað stefndi skaut lögreglumaður í átt að Brooks til að reyna að stöðva för hans en hætti til að leggja fólk ekki í aukna hættu. Skotið eina hæfði ekki Brooks.

Brooks á að baki sextán ákærur frá árinu 1999. Rannsókn stóð yfir í tveimur málum sem varða hann þegar atvikið átti sér stað í gær. Í tengslum við annað þeirra er hann sakaður um að hafa keyrt bifreið sinni vísvitandi á konu að loknu rifrildi þeirra með þeim afleiðingum að hún var lögð inn á spítala.


Tengdar fréttir

Kanna hvort ökumaðurinn hafi verið á flótta eftir glæp

Lögregluþjónar í Waukesha í Wisconsin í Bandaríkjunum rannsaka hvort maðurinn sem ók jeppa inn í jólaskrúðgöngu í gær hafi verið að flýja vettvang glæps. Minnst fimm dóu og rúmlega fjörutíu er slasaðir eftir að maðurinn ók inn í þvögu fólks.

Fimm látnir eftir að jeppi ók inn í jólaskrúðgöngu

Fimm eru látnir og rúmlega fjörutíu slasaðir eftir að jeppi ók inn í jólaskrúðgöngu í Wisconsin í Bandaríkjunum. Atburðurinn átti sér stað í borginni Waukesha sem er í grennd við Milwaukee.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×