Erlent

Þörf á annarri um­ferð í for­seta­kosningunum í Chile

Atli Ísleifsson skrifar
Hægripopúlistinn Jose Antonio Kast hlaut flest atkvæði í fyrri umferð kosninganna.
Hægripopúlistinn Jose Antonio Kast hlaut flest atkvæði í fyrri umferð kosninganna. EPA

Enginn hlaut hreinan meirihluta í fyrri umferð forsetakosninganna sem fram fór í Chile í gær og mun því önnur umferð fara fram í næsta mánuði.

Í síðari umferðinni verður kosið milli þeirra tveggja sem hlutu flest atkvæði í fyrri umferðinni – milli hægripopúlistans José Antonio Kast og vinstrimannsins Gabriel Boric. Síðari umferðin fer fram 19. desember.

Þegar búið var að telja 80 prósent atkvæða hafði Kast hlotið 28 prósent atkvæða en Boric 25 prósent. Fimm til viðbótar voru í framboði.

Auk þess að kjósa nýjan forseta var kosið um öll 155 sætin í neðri deild þjóðþings landsins og um helming sæta í öldungadeild þingsins.

Gabriel Boric er 35 ára og tók sæti á þinginu árið 2014.EPA

Fari svo að hinn 35 ára Boric verður kjörinn forseti verður hann yngsti forsetinn í sögu landsins. Boric var í hópi þeirra aðgerðasinna úr röðum stúdenta sem kjörnir voru á þingið árið 2014 eftir að hafa farið fyrir mótmælum þar sem umbóta í menntakerfinu var krafist. Hann var forsetaefni Heiðursbandalagsins svokallaða (Apruebo Dignidad), sem Kommúnistaflokkurinn á meðal annars aðild að.

Hinn 55 ára Kast er forsetaefni Repúblikanaflokksins og er sagður mikill aðdáandi einræðisherrans fyrrverandi, Augusto Pinochet. Kast bauð sig einnig fram árið 2017 og hlaut þá um átta prósent atkvæða. Í kosningabaráttunni lagði hann áherslu á mikilvægi íhaldsamra fjölskyldugilda og beindi spjótum sínum að farandfólki, meðal annars frá Haítí og Venesúela, sem hann sakar um að vera upp til hópa glæpafólk.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×