Íslenski boltinn

Breiðablik fær ven­esú­elsk­an liðsstyrk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Breiðablik heldur áfram að safna liði.
Breiðablik heldur áfram að safna liði. vísir/Hulda Margrét

Breiðablik hefur samið við Juan Camilo Pérez, 22 ára fjölhæfan leikmann frá Venesúela, um að leika með liðinu næstu tvö árin.

Pérez kemur til Breiðabliks frá Carabobo í heimalandinu. Hann hefur einnig leikið með Atlético Venezuela og Deportivo La Guaira. Pérez er örvfættur og getur leyst margar stöður á vellinum.

Í frétt á stuðningsmannasíðu Breiðabliks segir að Blikar hafi fylgst með Pérez í nokkurn tíma. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, kveðst ánægður með nýja leikmanninn sem kemur til landsins í byrjun næsta árs.

„Við erum mjög ánægðir með að hafa fengið Juan Camilo í okkar raðir. Við höfum fylgst með honum töluverðan tíma og teljum að hann muni styrkja Breiðabliksliðið mikið bæði sóknar- og varnarlega. Hann hefur alla þá eiginleika sem við leitum að í leikmönnum, er ungur, orkumikill, fljótur og ákveðinn og við hlökkum til að fá hann til okkar í byrjun janúar,“ sagði Óskar Hrafn.

Pérez er þriðji leikmaðurinn sem Breiðablik fær til sín eftir að síðasta tímabilinu lauk. Áður voru Dagur Dan Þórhallsson og Pétur Theodór Árnason komnir til liðsins. Sá síðarnefndi sleit krossband í hné á æfingu skömmu eftir komuna til Breiðabliks og missir þar af leiðandi af næsta tímabili.

Breiðablik endaði í 2. sæti Pepsi Max-deildarinar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×