Fótbolti

„Þá verður allt svart og það næsta sem ég man er að ég vakna á sjúkrahúsinu“

Sindri Sverrisson skrifar
Fjölskylda Emils beið eftir honum þegar hann rankaði við sér á sjúkrahúsinu í Bergen.
Fjölskylda Emils beið eftir honum þegar hann rankaði við sér á sjúkrahúsinu í Bergen.

„Það var ekkert sem að gaf til kynna að það væri eitthvað að, fyrr um daginn,“ segir knattspyrnumaðurinn Emil Pálsson um daginn sem að hann „dó“, í fjórar mínútur.

Emil fór í hjartastopp í leik með liði Sogndal í norsku 1. deildinni fyrir tveimur vikum. Hann var í hjartastoppi í tæpar fjórar mínútur áður en viðbragðsaðilar náðu að lífga hann við með hjartahnoði og hjartastuðtæki.

„Ég vaknaði við fyrsta stuð, sem er mjög jákvætt. Mér er náð til baka frekar fljótt og það er ekki langur tími þar sem ég er ekki með púls. Það er sirka búið að reikna út að í þrjár og hálfa eða fjórar mínútur hafi ég ekki verið með púls – í raun og veru dáinn. Það er að sjálfsögðu mjög sjokkerandi að heyra það en ég er bara þakklátur að vera á lífi,“ segir Emil sem ræddi við Svövu Kristínu Gretarsdóttur í Sportpakkanum á Stöð 2. Hluta úr viðtalinu má sjá hér að neðan:

Emil segir atvikið minna mikið á það þegar Christian Eriksen fór í hjartastopp í leik með danska landsliðinu á EM í sumar. Líkt og með Eriksen þá sé enn óljóst hvað hafi valdið hjartastoppi Emils, sem útskrifaðist af sjúkrahúsi í Noregi síðastliðinn þriðjudag og er kominn heim til Íslands.

„Ekki komið klár skýring“

„Þegar ég hugsa til baka þá voru engin merki um að eitthvað væri ekki eins og aðra daga. Rútínan var hefðbundin fyrir leik, upphitunin eðlileg, við skorum eftir sjö mínútur og ég man eftir því en það síðasta sem ég man eftir er þegar við vorum að fagna markinu. Síðan taka þeir miðju, leikurinn fer í gang aftur, og þá verður allt svart hjá mér og það næsta sem ég man er að ég vakna á sjúkrahúsinu,“ segir Emil og bætir við:

„Ég er með boltann og tek langa sendingu, en svo þegar ég er að hlaupa á eftir sendingunni þá einhvern veginn dett ég niður, á svipaðan hátt og Eriksen þegar hann datt niður í sumar. Þetta eru svolítið lík atvik – hvernig þau gerast og líka vegna þess að það hefur ekki komið klár skýring á því af hverju þetta gerist.“

Emil hefur áður sagt að hann sé þakklátur fyrir að hafa farið í hjartastopp á knattspyrnuvellinum en ekki á leið heim eftir leik, eða í sófanum heima hjá sér. Miðað við orð Kristjáns Guðmundssonar, hjartalæknis á Landspítalanum, í viðtali við Stöð 2 í sumar mátti engu muna að Emil yrði fyrir óafturkræfum heilaskaða:

„Maður hefur svona sirka þrjár mínútur eftir að fólk fer í hjartastopp til að hefja endurlífgun með hjartahnoði. Eftir þrjár mínútur er mikil hætta á að heilastarfsemin verði fyrir óafturkræfum skaða,“ sagði Kristján.


Tengdar fréttir

Emil útskrifaður af sjúkrahúsi

Knattspyrnumaðurinn Emil Pálsson var í dag útskrifaður af sjúkrahúsi, en hann var lagður inn í seinustu viku eftir að hafa farið í hjartastopp í leik með Sogndal í norsku fyrstu deildinni í fótbolta.

Emil Páls­son hné niður á vellinum

Leikur Sogndal og Stjørdals/Blink var flautaður af þegar knattspyrnumaðurinn Emil Pálsson hné niður eftir tólf mínútna leik. Emil lá á vellinum í um tíu mínútur en var kominn til meðvitundar þegar hann var settur um borð í sjúkraþyrlu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.