Emil hné niður á 12. mínútu í leik Sogndal og Stjørdals-Blink í norsku B-deildinni í fyrradag. Hann var lífgaður við á staðnum og fluttur með sjúkraþyrlu á háskólasjúkrahúsið í Haukeland í Björgvin.
Samkvæmt upplýsingum frá Sogndal í gær er Emil vakandi og líðan hans sögð góð eftir aðstæðum.
Tveir samherjar Emils tjáðu sig um atvikið við Verdens Gang í gær, fyrirliðinn Per-Egil Flo og Axel Kryger.
„Þetta hefur verið krefjandi. Þú færð áfall þegar eitthvað svona gerist og vonar bara að þetta fari vel. Þetta er þungt,“ sagði Flo.
„Þetta var hræðileg lífsreynsla. Hann sendi boltann, þú horfðir í aðra átt og þegar þú horfðir til baka voru hlutirnir ekki í lagi.“
Kryger tók í sama streng en sagði að fréttir gærdagsins hafi róað leikmenn og starfsfólk Sogndal.
„Þetta hefur verið mjög erfitt fyrir okkur. Það er erfitt að horfa á góðan vin liggja svona eftir. Þetta hefur áhrif á alla,“ sagði Kryger.
„Þetta var mikill léttir að frétta að ástand hans væri stöðugt. Það er gott fyrir okkur að vita það.“
Ekki hefur enn verið ákveðið hvenær leikur Sogndal og Stjørdals-Blink, eða síðustu 78 mínúturnar, verða kláraðar. Staðan var 1-0, Sogndal í vil, þegar Emil hné niður.
Sogndal er í 5. sæti norsku B-deildarinnar með fjörutíu stig. Tvö efstu liðin fara upp í úrvalsdeildina en liðin í sætum 3-6 í umspil.