Erlent

COP26 fer í fram­lengingu: Enn er þrasað um lofts­lags­mál í Glas­gow

Sunna Sæmundsdóttir og Árni Sæberg skrifa
Alok Sharma er forseti COP26,
Alok Sharma er forseti COP26, Stöð 2

Samningaviðræður standa enn yfir á lokametrum loftslagsráðstefnunnar í Glasgow sem átti að ljúka klukkan sex í kvöld. Drög að nýju og bitlausara samkomulagi voru birt í dag.

Talið er að samningaviðræðum verði ekki lokið fyrr en annað kvöld að sögn The Guardian.

Ný samningsdrög sem voru birt í morgun voru mörgum vonbrigði þar sem dregið var verulega úr orðalagi um kol og jarðefnaeldsneyti. Í fyrri drögum var talað um að ríki skyldu hraða því að taka kol og niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti úr umferð.

„Þetta leit mjög vel út í fyrstu. Textinn var skýr. Draga úr vinnslu og notkun kola og engar niðurgreiðslur á jarðefnaeldsneyti. Nú er textinn óljósari, ekkert dregið úr kolabrennslu,“ segir Jennifer Tollman, ráðgjafi í loftslagsmálum.

Breytingin var kannski viðbúin þar sem stórtækir framleiðendur jarðefnaeldsneytis á borð við Sádi-Arabíu, Rússland og Ástralíu þurfa að veita sitt samþykki.

Margir fulltrúar ráðstefnunnar gengu út nú síðdegis og slógust í raðir mótmælenda fyrir utan.

Aktívistinn Gréta Thunberg efast um árangur ráðstefnunnar og segir mörg ríki draga lappirnar. „Löndin sem þetta snertir minnst, það er þróuð ríki, neita enn að grípa til jafnvel minnstu ráðstafana. Það getur varla talist vera góður árangur,“ segir hún.

Alok Sharma, forseti COP26, stappaði stálinu í sendinefndir í dag. „Þetta er sú stund sem við verðum að efna loforðin og háleitu markmiðin sem leiðtogar okkar gáfu við upphaf þessa leiðtogafundar. Við verðum að vera vandanum vaxin,“ sagði hann í ávarpi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×