Erlent

Segir mark­mið Parísar­sam­komu­lagsins í „öndunar­vél“

Kjartan Kjartansson skrifar
Portúgalinn Antonio Guterres brúnaþungur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow sem nú stendur yfir.
Portúgalinn Antonio Guterres brúnaþungur á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow sem nú stendur yfir. AP/Alberto Pezzali

Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir að markmið Parísarsamkomulagsins um að takmarka hlýnun jarðar við 1,5°C sé ennþá innan seilingar en að það sé í „öndunarvél“. Fulltrúar ríkja heims reyna nú að ná samkomulagi á lokametrum COP26-loftslagsráðstefnunnar í Glasgow.

Ráðstefnunni á að ljúka um helgina en enn standa þó nokkur mál út af borðinu, þar á meðal alþjóðlegt viðskiptakerfi með losunarheimildir og fjárhagsaðstoð ríkari þjóða við þær snauðari.

Í drögum að samkomulagi sem bresku gestgjafarnir lögðu fram í gær var kveðið á um að ríki uppfæri landsmarkmið sín um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fyrir lok næsta árs og hætti niðurgreiðslum á jarðefnaeldsneyti. Öll ríkin þurfa að samþykkja endanlega útgáfu samkomulagsins, þar á meðal olíuríki eins og Sádi-Arabía.

Miðað við núverandi landsmarkmið þjóða stefnir í að hnattræn hlýnun nái 2,4°C á þessari öld, langt umfram markmið Parísarsamkomulagsins. Það kveður á um að hlýnun verði haldið vel innan tveggja gráða en helst innan einnar og hálfrar miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu.

„Það versta væri að ná samkomulagi þar sem allt er lagt í sölurnar með lægsta mögulega samnefnara sem tæki ekki á þeim risavöxnu áskorunum sem við stöddum frammi fyrir,“ segir Guterres í viðtali við AP-fréttastofuna.

Ríkin verði að auka metnað sinn á öllum sviðum, í að takmarka hlýnun, aðlagast loftslagsbreytingum og fjármagna aðgerðir.

Þegar hefur hlýnað á jörðinni um rúma eina gráðu frá því fyrir iðnbyltingu. Í vísindaskýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) í ágúst kom fram að líkur væru á því að 1,5°C markmið Parísarsamkomulagsins gæti brostið strax á næsta áratug jafnvel þó að dregið yrði hratt úr losun.

Því segir Guterres að þó að enn sé hægt að ná 1,5 gráðu markmiðinu sé það í „öndunarvél“.

Vonir einhverra glæddust um að loftslagsráðstefnan skilaði árangri eftir að stórveldin Bandaríkin og Kína, tveir stærstu losendur gróðurhúsalofttegunda í heimi, tilkynntu óvænt um að þau ætluðu að vinnan nánar saman á sviði loftslagsmála og hraða aðgerðum til að sporna gegn loftslagsbreytingum í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×