Enski boltinn

Steven Gerrard er nýr knattspyrnustjóri Aston Villa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard með Aston Villa treyjuna eftir að hann var staðfestur sem nýr stjóri liðsins.
Steven Gerrard með Aston Villa treyjuna eftir að hann var staðfestur sem nýr stjóri liðsins. Getty/Neville Williams

Liverpool goðsögnin Steven Gerrard er kominn aftur í ensku úrvalsdeildina en hann er tekinn við sem knattspyrnustjóri Aston Villa.

Gerrard hættir í starfi sínu hjá Rangers þar sem hann hefur verið að gera frábæra hluti. Hann gerir þriggja og hálfs árs samning við Aston Villa eða út 2024-25 tímabilið.

Steven Gerrard tekur við starfi Dean Smith sem var rekinn eftir síðasta leik liðsins sem var á sunnudaginn var. Aston Villa er í sextán sæti ensku úrvalsdeildarinnar með tíu stig en liðið hefur tapað síðustu fimm leikjum sínum.

Gerrard er 41 árs gamall og var fyrirliði Liverpool í tólf ár en hann spilaði með félaginu frá 1998 til 2015.

Gerrard byrjaði að þjálfa hjá ungmennaliðum Liverpool er tók síðan við skoska úrvalsdeildarfélaginu Rangers árið 2018.

Undir hans stjórn vann Rangers skoska meistarattilinn í fyrsta sinn í tíu ár og hann var kosinn knattspyrnustjóri ársins í Skotlandi.

Það bíða örugglega margir spenntir eftir því þegar Gerrard mun stýra liði Aston Villa á móti Liverpool.  Sá leikur verður 11. desember á Anfield. Aston Villa verður þá búið að spila fjóra leiki í ensku úrvalsdeildinni undir hans stjórn.

Fyrsti leikurinn verður aftur á móti á heimavelli á móti Brighton & Hove Albion 20. nóvember næstkomandi. Liðið spilar síðan við Crystal Palace, Manchester City og Leicester City áður en kemur að Liverpool leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×