Erlent

For­seti Síle á­kærður fyrir em­bættis­brot eftir upp­ljóstranir Pan­dóru­skjalanna

Kjartan Kjartansson skrifar
Sebastián Piñera á að láta af embætti í mars á næsta ári. Engu að síður ákvað neðri deild þingsins að kæra hann vegna brota sem gætu leitt til þess að hann verði sviptur embætti.
Sebastián Piñera á að láta af embætti í mars á næsta ári. Engu að síður ákvað neðri deild þingsins að kæra hann vegna brota sem gætu leitt til þess að hann verði sviptur embætti. AP/Estebán Felix

Neðri deild síleska þingsins kærði Sebastián Piñera forseta fyrir embættisbrot á þriðjudag. Forsetinn er sakaður um frændhygli sem kom fram í Pandóruskjölunum svonefndu. Ólíklegt er að efri deild þingsins samþykki að svipta Piñera embætti.

Naumur meirihluti neðri deildarinnar samþykkti kæruna eftir tuttugu klukkustunda þingfund. Af 155 þingmönnum greiddu 78 atkvæði með kæru en 67 gegn. Aðrir sátu hjá eða voru fjarverandi, að sögn AP-fréttastofunnar.

Öldungadeild þingsins ræður örlögum forsetans en ólíklegt er að það muni sakfella hann. Stjórnarandstaðan er með 24 þingsæti en 29 þarf til að setja forsetann af.

Réttarhöldin í öldungadeildinni fara fram í miðri kosningabaráttu en Piñera er ekki í framboði. Stjórnarskrá Síle leyfi honum ekki að gefa kost á sér til endurkjörs. Kosningarnar fara fram 21. nóvember en kjörtímabili forsetans lýkur 11. mars.

Pandóraskjölin, meiriháttar gagnaleki sem sýndi aflandsviðskipti áhrifafólks víða um heim, vörpuðu ljósi á hvernig sonur Piñera notaði aflandsfélög á Bresku Jómfrúareyjum til að selja Dominga-námuverkefni sem fjölskyldan átti hlut í.

Salan var háð því að ríkisstjórn Síle ákvæði að gera svæðið að náttúruverndarsvæði. Ríkisstjórn Piñera kaus að gera það ekki, þrátt fyrir mótbárur náttúruverndarsamtaka.

Piñera hélt því fram á sínum tíma að hann hefði ekki komið nálægt rekstri aflandsfélaganna og hann hafi ekki einu sinni gert sér grein fyrir tengslunum við Dominga-verkefnið. Talsmenn forsetans benda á að kjörtímabil hans hafi ekki verið hafið þegar salan var samþykkt. Saksóknarar og dómstólar hafi ekki talið neitt saknæmt hafa átt sér stað þegar þeir skoðuðu það árið 2017. Allir skattar hafi verið greiddir í Síle.

Ríkissaksóknari Síle segist engu að síður rannsaka málið aftur.

Piñera stóð af sér hörð mótmæli sem hófust árið 2019 þar sem milljónir mótmælenda kröfðust afsagnar hans. Í upphafi beindust þau að gjaldskrárhækkunum í almenningssamgöngur í höfuðborginni Santiago en síðar þróuðust þau í allsherjarmótmæli gegn ójöfnuði í landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×