Íslenski boltinn

Þróttur fær besta, efnilegasta og markahæsta leikmann 2. deildar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Freyja Karín Þorvarðardóttir skrifar undir samninginn við Þrótt.
Freyja Karín Þorvarðardóttir skrifar undir samninginn við Þrótt. þróttur

Freyja Karín Þorvarðardóttir er gengin í raðir Þróttar R. frá sameiginlegu liði Fjarðabyggðar, Hattar og Leiknis F. Hún skrifaði undir tveggja ára samning við Þróttara.

Freyja skoraði átján mörk í tólf leikjum fyrir Fjarðabyggð/Hött/Leikni í 2. deildinni á síðasta tímabili. Hún bætti svo fjórum mörkum við í úrslitakeppninni.

Freyja var valin besti og efnilegasti leikmaður 2. deildarinnar af þjálfurum liðanna. Þá var hún markahæst í deildinni.

Þrátt fyrir að vera aðeins sautján ára hefur Freyja leikið 35 leiki fyrir Fjarðabyggð/Hött/Leikni í meistaraflokki og skorað í þeim 36 mörk.

Freyja lék sína fyrstu leiki með U-19 ára landsliði Íslands í undankeppni EM í haust. Hún skoraði eitt mark í þessum leikjum, 0-2 sigri á Serbíu.

„Þjálfarar Þróttar hafa fylgst með Freyju í langan tíma og við Þróttarar erum geysilega ánægð með að Freyja skuli kjósa að stíga næsta skref á sínum ferli með Þrótti,“ segir Kristján Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar Þróttar, í fréttatilkynningu frá félaginu. 

„Freyja er mjög spennandi leikmaður með mikla hæfileika og mikinn metnað og hún fellur mjög vel að okkar hugmyndum um uppbyggingu félagsins. Við hlökkum til að vinna með henni á komandi árum.“

Þróttur endaði í 3. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili og komst í bikarúrslit þar sem liðið tapaði fyrir Breiðabliki, 4-0.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.