Íslenski boltinn

Aron og Heiðar komnir til Vals

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Jóhannsson lék síðast á Íslandi 2010.
Aron Jóhannsson lék síðast á Íslandi 2010. getty/Foto Olimpik

Aron Jóhannsson og Heiðar Ægisson eru gengnir í raðir Vals. Greint var frá þessu á blaðamannafundi á Hlíðarenda í dag.

Aron snýr aftur til Íslands eftir rúmlega áratug í atvinnumennsku erlendis. Hann lék síðast með Lech Poznan í Póllandi.

Aron lék með Fjölni áður en hann hélt utan. Síðasta tímabil hans á Íslandi var með Fjölni í næstefstu deild 2010.

Hinn þrítugi Aron hefur leikið nítján leiki fyrir bandaríska landsliðið og lék meðal annars með því á HM í Brasilíu 2014.

Heiðar Ægisson hefur ákveðið að hleypa heimdraganum.vísir/hulda margrét

Heiðar kemur til Vals frá Stjörnunni þar sem hann hefur leikið allan sinn feril. Hinn 26 ára Heiðar hefur leikið 128 leiki í efstu deild og skorað tvö mörk. Hann varð Íslandsmeistari með Stjörnunni 2014 og bikarmeistari 2018.

Samningur Heiðars við Stjörnuna rann út eftir síðasta tímabil og í gær greindi hann frá því að hann væri á förum frá félaginu.

Valur endaði í 5. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili og náði ekki Evrópusæti.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.