Íslenski boltinn

Keflavík fær markvörð frá grönnunum

Sindri Sverrisson skrifar
Haraldur Freyr Guðmundsson, nýr aðstoðarþjálfari Keflavíkur, handsalar samning við Rúnar Gissurarson sem var einnig lærisveinn hans í sumar.
Haraldur Freyr Guðmundsson, nýr aðstoðarþjálfari Keflavíkur, handsalar samning við Rúnar Gissurarson sem var einnig lærisveinn hans í sumar. mynd/Keflavík

Markvörðurinn Rúnar Gissurarson hefur leikið fyrir fjögur félög á Reykjanesi og hefur nú samið við knattspyrnudeild Keflavíkur þar sem hann verður út næstu leiktíð hið minnsta.

Rúnar varði mark Reynis Sandgerði í 2. deild í sumar og lék þá undir stjórn Haraldar Freys Guðmundssonar sem nýverið var ráðinn aðstoðarþjálfari Keflavíkur.

Sumarið 2020 var Rúnar markvörður Njarðvíkur. Hann hefur lengst af síns ferils leikið með Reyni en einnig leikið með Víði og Þrótti Vogum.

Rúnar hefur aldrei leikið ofar en í 2. deild en þar á hann að baki 46 leiki og alls hefur þessi 34 ára gamli markvörður leikið 154 deildarleiki.

Hinn 24 ára gamli Sindri Kristinn Ólafsson hefur verið aðalmarkvörður Keflavíkur um árabil. Hinn 19 ára gamli Helgi Bergmann Hermannsson var til taks á varamannabekknum í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×