Enski boltinn

Ole Gunnar talaði um Michael Jordan eftir leikinn í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Michael Jordan eru báðir einstakir leikmenn í sinni íþrótt.
Cristiano Ronaldo og Michael Jordan eru báðir einstakir leikmenn í sinni íþrótt. Samsett/AP&Getty

Norski knattspyrnustjórinn Ole Gunnar Solskjær fór að tala um besta körfuboltamann allra tíma eftir jafnteflisleik Manchester United og Atalanta í Meistaradeildinni í gærkvöldi.

Cristiano Ronaldo kom Solskjær enn á ný til bjargar en Portúgalinn jafnaði metin í tvígang og skoraði í uppbótatíma beggja hálfleikja.

Jöfnunarmarkið hans í lok leiksins kom með frábæru skoti fyrir utan teig og var gríðarlega mikilvægt í baráttunni um að komast áfram í sextán liða úrslitin.

Ronaldo hefur nú skorað 9 mörk í 12 leikjum með Manchester United á tímabilinu þar af fimm mörk í fjórum leikjum í Meistaradeildinni. Ronaldo hefur skoraði tvö sigurmörk og þetta mark sem tryggði liðinu jafntefli í þessum fjórum leikjum og hefur komist á blað í þeim öllum.

Ole Gunnar kallaði Ronaldo besta markaskorarann á lífi eftir leikinn.

„Hann er ótrúlegur og ef þú vilt að boltinn falli fyrir einhvern á síðustu mínútunni þá er það hann. Hann er besti markaskorari á lífi og það er erfitt fyrir mig að segja það því með þessum tveimur mörkum komst hann fram úr mér. Hann hefur nú skorað einu marki meira en ég fyrir Manchester United,“ sagði Ole Gunnar Solskjær.

Solskjær skoraði á sínum tíma 126 mörk fyrir Manchester United og mörg þeirra eftir að hafa komið inn á sem varamaður.

„Seinna markið hans var eins og stundin þegar Michael Jordan vann NBA-titilinn í framlengingu. Cristiano er fyrir okkur eins og Jordan var fyrir Chicago Bulls á sínum tíma,“ sagði Ole Gunnar.

„Svona er fótboltinn og það getur enginn efast um karakter þessara leikmanna af því að þeir gefast aldrei upp og gefa aldrei eftir. Þeir halda alltaf áfram. Við uðrum að gera breytingar og þær gengu upp,“ sagði Solskjær.

Norðmaðurinn sendi þá Jadon Sancho og Donny van de Beek inn á völlinn undir lokin en þeir hafa verið í frystinum hjá honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×