Ron­aldo, Ca­vani og Ras­h­ford sáu til þess að Sol­skjær er ekki að fara neitt

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Þessir tveir skoruðu í dag.
Þessir tveir skoruðu í dag. Catherine Ivill/Getty Images

Cristiano Ronaldo, Edinson Cavani og Marcus Rashford skoruðu mörk Manchester United í 3-0 útisigri á Tottenham Hotspur í lokaleik ensku úrvalsdeildarinnar þennan laugardaginn. Sigurinn gefur Ole Gunnar Solskjær, þjálfara Rauðu Djöflanna, smá andrými.

Solskjær brást við ömurlegum varnarleik sinna manna undanfarið með því að stilla upp í 5-3-2 leikkerfi með þá Ronaldo og Cavani upp á topp. Það virkaði heldur betur í dag.

Christian Romero, miðvörður Tottenham, hélt hann hefði komið sínum mönnum yfir snemma leiks með skalla eftir hornspyrnu en er markið var skoðað kom í ljós að hann var rangstæður. 

Annars var fyrri hálfleikur frekar tíðindalítill er frá er talið langskot Fred sem Hugo Lloris varði meistaralega og svo magnað mark Ronaldo á 39. mínútu eftir frábæra sendingu Bruno Fernandes.

Staðan 1-0 í hálfleik og snemma í síðari hálfleik hélt Ronaldo að hann hefði tvöfaldað forystu gestanna en markið dæmt af. Cavani kom Man Utd í 2-0 þegar hann lyfti boltanum snyrtilega yfir Lloris eftir sendingu Ronaldo.

Rashford leysti Ronaldo af hólmi þegar tuttugu mínútur lifði leiks og skoraði hann þriðja mark gestanna þegar þrjár mínútur lifðu leiks. Staðan orðin 3-0 og reyndust það lokatölur leiksins.

Man Utd er nú í 5. sæti með 17 stig líkt og West Ham United og Arsenal. Tottenham Hotspur er í 8. sæti með 15 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira