New York Post greinir frá því að leit að göngumanninum, sem ekki er nefndur á nafn í umfjölluninni, hafi hafist eftir að hann skilaði sér ekki niður af Elbert-fjalli, hæsta fjalli Colorado, á þeim tíma sem búist var við.
Daginn eftir þræddu leitarhópar fjallið en höfðu ekki erindi sem erfiði. Hópar leitarfólks reyndu ítrekað að ná sambandi við manninn með því að hringja í hann, í þeirri von að fá staðfest að hann væri öruggur, og reyna í kjölfarið að komast til hans.
Göngumaðurinn varð símtalanna vissulega var, en ákvað að svara ekki símanum þar sem hann þekkti ekki númerið sem hringt var úr. Um sólarhring eftir að leit hófst fann göngumaðurinn rétta leið og komst af sjálfsdáðum að bíl sínum við rætur fjallsins.
„Sá sem leitað var að hundsaði ítrekuð símtöl frá okkur því hann þekkti ekki númerið,“ hefur NYP eftir yfirvöldum sem sáu um leitina.
„Ef þú ert ekki kominn niður á þeim tíma sem fram kemur í ferðaáætluninni þinni og ferð að fá símtöl frá óþekktu númeri, vinsamlegast svaraðu; þetta gæti verið björgunarsveit sem vill fá það staðfest að þú sért öruggur.“