Erlent

Fyrsta konan til að gegna em­bætti þing­for­seta Þýska­lands í 23 ár

Atli Ísleifsson skrifar
Bärbel Bas tekur við embætti þingforseta af Wolfgang Schäuble.
Bärbel Bas tekur við embætti þingforseta af Wolfgang Schäuble. EPA

Þýska þingið samþykkti í dag að Jafnaðarmaðurinn Bärbel Bas taki við embætti þingforseta. Hin 53 ára Bas tekur við embættinu af kristilega demókratanum og fjármálaráðherranum fyrrverandi, hinum 79 ára Wolfgang Schäuble.

Bas hefur síðustu ár gegnt stöðu varaformanns þingflokks Jafnaðarmanna, en hún tók sjálf fyrst sæti á þingi árið 2009. Hún er þingmaður Duisburg.

Embætti þingforseta er talið næstæðsta pólitíska embættið í stjórnskipan landsins, á eftir forseta landsins en er talið æðra embætti kanslara. Schäuble hafði gegnt embætti þingforseta frá árinu 2017.

Eftir þingkosningarnar sem fram fóru 26. september síðastliðinn, þar sem Jafnaðarmannaflokkurinn varð stærstur á þingi, var ljóst að líkur væru á að þrjú æðstu pólitísku embættin í landinu yrðu skipuð karlmönnum og var því þrýst á það úr ýmsum áttum að kona tæki við embætti þingforseta.

Frank-Walter Steinmeier er forseti Þýskalands og bendir flest til að Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz taki við embætti kanslara af Angelu Merkel, en Jafnaðarmenn, Græningjar og Frjálslyndir demókratar eiga nú í viðræðum um myndun stjórnar.

Bas verður þriðja konan til að gegna embætti þingforseta í Þýskalandi. Annemarie Renger gegndi embætti þingforseta Vestur-Þýskalands á árunum 1972 til 1976 og Rita Süssmuth á árunum 1988 til 1998.


Tengdar fréttir

Hver er þessi Olaf Scholz?

Þjóðverjar munu brátt sjá nýjan mann í embætti kanslara í stað Angelu Merkel sem stýrt hefur landinu frá árinu 2005. Eftir kosningar á sunnudag má telja líklegast að það verði Olaf Scholz fjármálaráðherra sem var kanslaraefni Jafnaðarmannaflokksins (SPD) í nýafstöðnum kosningum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×