Erlent

Stærstu samtök lögreglumanna í New York mótmæla bólusetningarkvöðinni

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Um 70 prósent starfsmanna lögreglunnar í New York hafa nú þegar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.
Um 70 prósent starfsmanna lögreglunnar í New York hafa nú þegar fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni. epa/Will Oliver

Stærstu samtök lögreglumanna í New York hafa lagt fram kæru þar sem þeir krefjast þess að dómstólar heimili lögreglumönnum að halda vinnunni þótt þeir kjósi að afþakka bólusetningu gegn Covid-19.

Borgaryfirvöld hafa samþykkt nýjar reglur sem kveða á um að allir starfsmenn borgarinnar verði að þiggja að minnsta kosti einn skammt af bóluefni fyrir 1. nóvember næstkomandi eða eiga það á hættu að verða sendir í launalaust leyfi.

Lögreglusamtökin hafa mótmælt nýju reglunum og vilja að þær gömlu gildi áfram, það er að segja að mönnum verði leyft að velja á milli þess að þiggja bólusetningu eða gangast undir vikulegt Covid-próf.

Í kærunni segir einnig að nýju reglurnar taki ekki nægilegt tillit til þeirra sem kunna að vilja afþakka bólusetningu á trúarlegum forsendum. Borgarstjórinn Bill de Blasio sagði að komið yrði til móts við þá sem vildu ekki láta bólusetja sig af trúarlegum ástæðum en að „gildar ástæður“ væru fáar.

Lögreglusamtök víða um Bandaríkin hafa sett sig upp á móti kvöðum um bólusetningu, jafnvel þótt Covid-19 sé algengasta dánarorsök lögreglumanna á þessu ári og í fyrra. Um 70 prósent starfsmanna lögreglunnar í New York hefur fengið að minnsta kosti einn skammt af bóluefni.

New York Times greindi frá.


Tengdar fréttir

Vill borga óbólusettum löggum fyrir að flytja til Flórída

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, ætlar að greiða óbólusettum lögregluþjónum fimm þúsund dali fyrir að flytja til ríkisins og starfa þar. Hann segir vöntun á lögreglunum og segir að betur verði komið fram við þá en annars staðar þar sem lögregluþjónum er gert að fara í bólusetningu við Covid-19.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×