Erlent

Amnesty yfirgefur Hong Kong vegna umdeildra öryggislaga

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Amnesty International mun loka skrifstofum sínum í Hong Kong fyrir árslok.
Amnesty International mun loka skrifstofum sínum í Hong Kong fyrir árslok. EPA-EFE/JEROME FAVRE

Mannréttindasamtökin Amnesty International tilkynntu það í dag að þau muni loka skrifstofum sínum í Hong Kong vegna umdeildra öryggislaga, sem yfirvöld í Kína komu á í sjálfsstjórnarhéraðinu. Lögin hafa gert mannréttindasamtökum erfitt fyrir að starfa á eigin forsendum, án þess að sæta viðurlögum yfirvalda. 

Anjhula Mya Singh Bais, formaður alþjóðastjórnar Amnesty, sagði í yfirlýsingu í morgun að skrifstofurnar tvær muni loka fyrir árslok. Vísaði hún til þess að lögreglan í Hong Kong hafi í auknum mæli snúið spjótum sínum að mannréttindasamtökum og frjálsum fjölmiðlum sem hafi orðið til þess að meira en 35 samtök og hópar hafi leyst upp vegna laganna á þessu ári. Fréttastofa Reuters greinir frá.

„Þessi erfiða ákvörðun var tekin vegna öryggislaga Hong Kong en þau hafa gert það nær ómögulegt fyrir mannréttindasamtök að starfa frjálst í Hong Kong án hættu á refsiaðgerðum,“ sagði Singh Bais í yfirlýsingunni. 

Hong Kong hefur í gegn um tíðina verið miðstöð mannréttinda- og góðgerðasamtaka í Asíu, hafandi verið frjálst og öruggt svæði undanfarna áratugi. Eftir að öryggislögin umdeildu voru tekin í gildi í héraðinu í fyrra hefur staðan breyst nokkuð mikið. 

Á þessu ári hafa til að mynda nokkur stéttafélög, fjölmiðlar og góðgerðasamtök þurft að loka dyrum sínum en önnur samtök fært starfsemi sína yfir til Taívan. 

Lögin breyttu héraðinu

Lögin tóku gildi í Hong Kong í fyrra að frumkvæði stjórnvalda í Peking. Hong Kong hefur hingað til verið sjálfsstjórnarhérað en með þessu segja gagnrýnendur að héraðið sé nær alveg undir stjórn kínverskra stjórnvalda. 

Lögin voru sett í skjóli óeirða sem skuku héraðið árið 2019. Fjöldamótmæli höfðu staðið yfir í Hong Kong í marga mánuði þegar lögin voru sett og var ástæðan, að sögn stjórnvalda, þau að koma þyrfti á lögum og reglum að nýju í kjölfar óeirðanna. Lögin eru hins vegar sögð skerða réttindi borgara verulega, og mega þeir til að mynda ekki tala gegn kínverskum stjórnvöldum. 

Mótmælendur hafa undanfarin ár kallað eftir því að kínversk stjórnvöld standi við loforð sín um að borgin njóti frelsis, sjálfsstjórnar og sjálfstæðis í framtíðinni undir svokallaðri „eitt land, tvö kerfi,“ tilhögun. 

Síðan lögin tóku gildi hafa yfirvöld hins vegar sett á strangar reglur og brotið frjálsa orðræðu og réttinn til mótmæla á bak aftur. Margir aðgerðasinnar fyrir sjálfstæði hafa verið fangelsaðir eða sendir í útlegð. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×