Erlent

Mikið ó­veður herjar á íbúa vestur­strandar Banda­ríkjanna

Atli Ísleifsson skrifar
Mikil skriða féll á Highway 70 í Plumas-sýslu í Kaliforníu.
Mikil skriða féll á Highway 70 í Plumas-sýslu í Kaliforníu. AP

Mikið óveður hefur herjað á íbúa vesturstrandar Bandaríkjanna síðustu daga og stefnir nú suðurhluta Kaliforníu. Flætt hefur yfir vegi, tré hafa rifnað upp með rótum og aurskriður fallið, meðal annars á svæðum í norðurhluta ríkisins sem brunnu nýverið vegna mikilla þurrka.

Gríðarleg rigning hefur verið á svæðinu, þá hefur mikill raki komið inn af Kyrrahafi og skollið á vesturströndina. Talsmenn yfirvalda í Sacramento hafa varað við að úrkomumet kunni að falla.

AP segir frá því að tilkynnt hafi verið um að flætt hafi yfir vegi í San Francisco flóa og sömuleiðis hefur flætt yfir bakka áa, meðal annars í sýslunum Napa og Sonoma. Rafmagnslaust er á heimilum hundruð þúsunda manna vegna óveðursins.

Frá Oakland í Kaliforníu.AP

Í Seattle í Washington-ríki var tilkynnt að tveir væru látnir eftir að tré féll í óveðrinu og á bíl sem þau óku í.

Yfirvöld hafa sérstakar áhyggjur af þeim svæðum þar sem gróðureldar hafa áður herjað þar sem landsvæði án gróðurs eigi í meiri vandræðum með að drekka í sig það vatn sem fellur í formi rigningar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×