Erlent

Réttar­höld í mann­ráns­máli Salvini hafin

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Salvini ræddi við blaðamenn fyrir utan dómhúsið í Palermo í gær. Þar hæddist hann meðal annars að þeirri staðreynd að leikarinn Richard Gere væri á meðal vitna ákæruvaldsins.
Salvini ræddi við blaðamenn fyrir utan dómhúsið í Palermo í gær. Þar hæddist hann meðal annars að þeirri staðreynd að leikarinn Richard Gere væri á meðal vitna ákæruvaldsins. AP/Gregorio Borgia

Réttarhöld yfir Matteo Salvini, fyrrverandi innanríkisráðherra Ítalíu, eru hafin. Hann er ákærður fyrir mannrán og vanrækslu embættiskyldna með því að hafa komið í veg fyrir að björgunarskip með farandverkafólk innanborðs kæmi að höfn á Ítalíu. Hann neitar sök.

Meint embættisbrot Salvinis átti sér stað í ágúst árið 2019, þegar hann lét loka höfnum fyrir spænsku björgunarskipi sem innihélt 150 farandverkafólks sem hafði verið bjargað af flekum og bátum í Miðjarðarhafinu.

Áhöfn og farþegar skipsins vörðu því 19 dögum úti fyrir ströndum Ítalíu áður en því var leyft að leggja að höfn. Breska ríkisútvarpið greinir frá því að aðstæður um borð hafi á þeim tíma orðið afar slæmar.

Hollywood-leikari meðal vitna

Á fyrsta degi réttarhaldanna í gær var hlustað á vitnaskýrslur frá vitnum beggja megin borðsins, þeirra sem ákæruvaldið og verjendur Salvini höfðu kallað til.

Meðal vitna ákæruvaldsins er bandaríski leikarinn Richard Gere, sem var um borð í björgunarskipinu. Áður en réttarhöldin hófust hæddist Salvini að aðkomu leikarans að málinu.

„Ég velti fyrir mér hvort það sé raunverulega satt að Richard Gere frá Hollywood ætli að bera vitni um hegðun mína fyrir réttinum,“ sagði Salvini við blaðamenn fyrir utan dómsalinn. Meðal annarra vitna í málinu eru Giuseppe Conte forsætisráðherra og ráðherrar í ríkisstjórn hans.

Gere hafði farið um borð í skipið skömmu áður en því var leyft að leggjast að höfn á ítölsku eyjunni Lampedusa.

Málið var afar umdeilt á sínum tíma og olli togstreitu í þáverandi ríkisstjórn Ítalíu. Það var svo í febrúar á síðasta ári sem öldungadeild ítalska þingsins greiddi atkvæði með því að svipta Salvini friðhelgi sem hann naut sem þingmaður. Í kjölfarið var hægt að ákæra hann fyrir hin meintu brot.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×