Erlent

Fórnarlömb repjuolíueitrunar í setuverkfalli á listasafni og hóta sjálfsvígi

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá El Prado-listasafninu í miðborg Madridar, höfuðborgar Spánar.
Frá El Prado-listasafninu í miðborg Madridar, höfuðborgar Spánar. Vísir/EPA

Hópur fólks sem lifði af meiriháttar repjuolíueitrun á 9. áratugnum lögðu undir sig sal í El Prado-listasafninu í miðborg Madridar á Spáni í morgun. Fólkið hótar að svipta sig lífi nema stjórnvöld verði við kröfum þess.

Spænska dagblaðið El País segir að mótmælendurnir séu sex. Þeir krefjast þess að Pedro Sánchez, forsætisráðherra, ræði við þá. Mótmælendurnir hafi komið inn í safnið sem gestir um klukkan tíu að staðartíma í morgun en síðan hreiðrað um sig í einum sýningarsalnum.

Öryggisverðir reyna að koma fólkinu burt og tveir mótmælendur hafa þegar verið handteknir.

Reuters-fréttastofan segir að einn mótmælendanna hafi hótað því á Twitter-reikningi samtaka fórnarlamba eitrunarinnar að þeir ætli sér að taka inn pillur og svipta sig lífi sex klukkustundum eftir að það hóf setuverkfall sitt í listasafninu.

Um sex hundruð manns létust þegar þeir innbyrtu mengaða repjuolíu á Spáni árið 1981. Fleiri en tuttugu þúsund manns urðu fyrir eituráhrifum. Rúmlega fjörutíu innflytjendur og sölumenn olíunnar voru sakaðir um að bera ábyrgð á eitruninni. Olían var framleidd til iðnaðarnota en seld sem matarolía, að því er sagði í umfjöllun New York Times um réttarhöldin yfir þeim frá árinu 1987.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×