Aðeins fimm ár eru liðin síðan að þingmaðurinn Jo Cox var myrt í aðdraganda Brexit kosninganna 2016. Eiríkur Bergmann, prófessor í stjórnmálafræði, segir að í gegnum tíðina hafi bresk stjórnmál verið mjög opin en morðið á Cox hafi takmarkað aðgengi kjósenda á þingmönnum.
Slíkt gæti gerst ný með morðinu á Amess en Eiríkur segir margt líkt með morðinu á Cox fyrir fimm árum og morðinu á Amess í gær. Amess var þingmaður íhaldsflokksins en Cox þingmaður verkamannaflokksins.
„Þessi atburður [í gær] minnir eiginlega óþægilega mikið á [morðið á Cox], í báðum tilvikum var um að ræða þingmenn á leiðinni til fundar við fólk í kjördæmi sínu,“ segir Eiríkur. „Eftir að Cox var myrt jókst öryggisgæsla verulega við þingmenn og það má gera ráð fyrir að hún eigi eftir að aukast enn meira við þennan viðburð.“
„Þannig ein afleiðingin gæti verið erfiðara aðgengi almennings að þingmönnum sínum sem væri mjög slæmt fyrir breska stjórnmálamenningu sem hefur, þrátt fyrir allt, verið mjög opin hvað þetta varðar,“ segir Eiríkur.
Lögregla er nú með 25 ára gamlan breskan karlmann af sómölskum uppruna í haldi og er hann grunaður um verknaðinn.
„Svona skelfilegur viðburður hefur gjarnan þær afleiðingar að kalla fram ákveðna andúð á tilteknum þjóðfélagshópum heima fyrir og verður svona til þess að þessi samfélög pólaríserast meira og getur orðið algjört eitur í samfélögum,“ segir Eiríkur.
Aðspurður um hvaða áhrif morð á þingmanni í vestrænu samfélagi hefur segir Eiríkur það erfitt að segja. „Svona atburðir eiga það til að kalla á viðbrögð og þá ekki alltaf þau ákjósanlegustu en það er engin leið til að segja fyrir fram hvað gerist,“ segir Eiríkur.