Erlent

Tölvuþrjótur ræðst á streymisveituna Twitch

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Vefsíðan Twitch nýtur mikilla vinsælda meðal tölvuleikjaspilara um allan heim.
Vefsíðan Twitch nýtur mikilla vinsælda meðal tölvuleikjaspilara um allan heim. Vísir/Getty

Tölvuþrjótur lak 125 gígabætum af upplýsingum um streymisveituna Twitch í morgun. Í lekanum má meðal annars finna upplýsingar um tekjur þeirra sem dreifa efni á síðunni.

Streymisveitan Twitch sérhæfir sig í útsendingu rafíþrótta en á síðunni geta iðkendur eða áhugamenn streymt tölvuleikjaspilun sinni í beinni útsendingu. Veitan nýtur mikilla vinsælda en um þrjátíu milljón manns heimsækja vefinn daglega.

Í gagnalekanum má, ásamt tekjuupplýsingum, einnig finna frumkóða (e. source code) streymisveitunnar. Samkvæmt frétt Wired geta slíkar upplýsingar auðveldað öðrum tölvuþrjótum að stela viðkvæmum gögnum notenda.

Segir samfélag Twitch „ógeðslegt, eitrað lastabæli“

Tölvuþrjóturinn birti gögnin á vefsíðunni 4chan og segir hafa ráðist á Twitch til þess að stuðla að aukinni samkeppni milli streymisveita. Þá segir hann samfélag Twitch vera „ógeðslegt, eitrað lastabæli“. Þrjóturinn segir lekann þann fyrsta og gefur þannig til kynna að búast megi við frekari gögnum um streymisveituna.

Stjórnendur streymisveitunnar hafa staðfest tölvuárásina á Twitter en gefa ekki upp nánari upplýsingar. Aðilar með aðgang að gögnunum vilja meina að í lekanum séu einnig upplýsingar um lykilorð notenda síðunnar. Þeir hvetja notendur Twitch að breyta lykilorðum sínum hið snarasta.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×