Erlent

Skjóta geim­fari á loft­stein til að æfa jarð­varnir

Þorgils Jónsson skrifar
Geimfarinu DART verður skotið upp í næsta mánuði en það á að skella á litlu smástirni til að skoða hvort hægt sé að beina mögulega hættulegum loftsteinum frá jörðinni.
Geimfarinu DART verður skotið upp í næsta mánuði en það á að skella á litlu smástirni til að skoða hvort hægt sé að beina mögulega hættulegum loftsteinum frá jörðinni.

Geimfari á vegum NASA, bandarísku geimvísindastofnunarinnar, verður skotið á loft í næsta mánuði og mun brotlenda á smástirni í 11 milljóna kílómetra fjarlægð eftir tæpt ár.

Tilgangur þessa verkefnis er að kanna hvort stefna smástirnisins breytist við áreksturinn. Af því mætti svo ráða möguleikana á því að nýta þá tækni síðar meir til að hnika burt smástirnum sem stefna hættulega nálægt jörðu.

Verkefnið kallast DART (Double Asteroid Redirection Test) og verður farinu skotið upp í flaug frá SpaceX hinn 23. nóvember næstkomandi. Ef allt fer að óskum, mun það ná marki sínu í september 2022 og skella á smáhnettinum Dimorphos á meira en 20 þúsund kílómetra hraða á klukkustund. Dimorphos er lítill fylgihnöttur smástirnis og er af svipaðri stærð, um 160 metrar í þvermál, og þau smástirni sem líkleg þykja til að ógna Jörðinni í fyllingu tímans.

Samkvæmt frétt CNN er gert ráð fyrir að áreksturinn muni aðeins draga úr hraða hnattarins um 1%, en það hafi þó í för með sér að umferðartími Dimorphos um smástirnið Didymos muni tefjast um nokkrar mínútur.

Þremur árum eftir áreksturinn mun svo Geimvísindastofnun Evrópu, ESA, skjóta upp fari að nafni Hera, sem mun fljúga að Dimorphosi og mæla áhrifin af árekstrinum.

Varnir gegn hættum af smástirnum sem geta skollið á Jörðinni er í forgangi hjá geimvísindastofnunum heimsins og verður fróðlegt að sjá hvort þarna verði komin raunhæf lausn til sjálfsvarnar jarðarinnar gegn ógnum utan úr óravíddum geimsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×