Erlent

Duterte segist aftur ætla að setjast í helgan stein

Árni Sæberg skrifar
Rodrigo hefur verið forseti Filippseyja frá árinu 2016.
Rodrigo hefur verið forseti Filippseyja frá árinu 2016. Ezra Acayan/Getty Images

Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, tilkynnti í dag að myndi hætta afskiptum sínum af stjórnmálum þegar núverandi kjörtímabili hans lýkur. Hann hafði áður þegið tilnefningu um að vera varaforsetaefni flokks síns í forsetakosningum í maí næstkomandi.

Í frétt The Guardian um málið segir að ákvörðun hans um að bjóða sig fram til varaforseta hafi verið umdeild á Filippseyjum. Reglur þar í landi kveða á um að forseti landsins megi einungis sitja eitt sex ára kjörtímabil. Margir hafi talið á áætlun Dutertes væri að stýra landinu áfram úr varaforsetastól. 

Stjórnmálarýnendur telja jafnframt að erfitt sé að taka forsetann á orðinu þar sem hann tilkynnti einnig árið 2015, þegar hann var borgarstjóri Davaó, að hann myndi hætta öllum afskiptum af stjórnmálum. Í stað þess að hætta bauð hann sig fram til forseta og vann kosningarnar með miklum yfirburðum.

Þá telji margir Filippseyjingar að nýjasta útspil forsetans greiði leið dóttur hans, Söru Duterte, að embætti forseta. Hún er nú borgarstjóri Davaó líkt og faðir hennar var.

Segist fara að vilja þjóðarinnar

Samhliða tilkynningu um brottför Dutertes af stjórnmálasviðinu tilkynnti hann að Christopher „Bong“ Go, samstarfsmaður hans í PDP-Laban flokknum, myndi bjóða sig fram til varaforseta í hans stað.

„Það er meirihlutaskoðun þjóðarinnar að ég sé ekki hæfur, og að framboð mitt brjóti gegn stjórnarskrá. Ég mun fara að óskum ykkar og í dag tilkynni ég starfslok mín í stjórnmálum,“ sagði forsetinn fráfarandi við fjölmiðla í dag.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×