Íslenski boltinn

Ás­mundur tekur við bikar­meisturum Breiða­bliks

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ásmundur hefur skrifað undir þriggja ára samning við Blika.
Ásmundur hefur skrifað undir þriggja ára samning við Blika. Breiðablik

Bikarmeistarar Breiðabliks gáfu frá sér tilkynningu í dag þess efnis að Ásmundur Arnarsson væri nýr þjálfari liðsins. Er hann ráðinn til þriggja ára.

Breiðablik varð í gær bikarmeistari kvenna í fótbolta en vitað var að Vilhjálmur Kári Haraldsson myndi ekki halda áfram með liðið. Hann hafði tekið við Blikaliðinu fyrir tímabilið og skilað því í 2. sæti Pepsi Max-deildarinnar og inn í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu áður en liðið mætti Þrótti Reykjavík í úrslitum Mjólkurbikarsins í gær.

Þar vannst 4-0 sigur en síðasti leikur Vilhjálms Kára með liðið verður gegn franska stórliðinu París Saint-Germain þann 6. október næstkomandi. Ásmundur verður einnig í þjálfarateyminu í þeim leik. Þá segir á vef Breiðabliks að Vilhjálmur verði liðinu innan handar ef þess þurfi.

Ásmundur stýrði liði Fjölnis í sumar í Lengjudeild karla þar sem það endaði í 3. sæti. Hann þekkir ágætlega til í Kópavogi eftir að hafa þjálfað Augnablik frá 2017 til 2018 sem og að þjálfa 2. og 3. flokk kvenna hjá Breiðabliki.

„Það er mikið fagnaðarefni fyrir okkur Blika að fá svona reynslumikinn og öflugan þjálfara í starfið og ætlar félagið sér áfram að vera leiðandi í íslenskri kvennaknattspyrnu og byggja ofan á þann frábæra árangur sem náðst hefur á undanförnum árum. Um leið og við þökkum Vilhjálmi Kára fyrir hans frábæra framlag til félagsins bjóðum við Ásmund Arnarsson hjartanlega velkominn til starfa,“ segir í tilkynningu Breiðabliks.


Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.