Erlent

Íhuga að kalla til hermenn til að aka olíuflutningabifreiðum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hugmyndir til að leysa eldsneytisvandann verða lagðar fyrir forsætisráðherra í dag.
Hugmyndir til að leysa eldsneytisvandann verða lagðar fyrir forsætisráðherra í dag. epa/Michael Reynolds

Stjórnvöld á Bretlandseyjum íhuga nú að kalla til hermenn til að koma eldsneyti á bensínstöðvar víðsvegar um landið, eftir að olíurisinn BP greindi frá því að skortur væri á þriðjungi stöðva sinna.

Forsvarsmenn Petrol Retailers Association, sem tala fyrir 5.500 sjálfstæðar bensínstöðvar, segja 50 til 90 prósent sinna félagsmanna að verða uppiskroppa með eldsneyti og að innan tíðar verði sama staðan uppi hjá öðrum.

Ráðamenn segja vandann sjálfskapaðan en fregnir af mögulegum skorti hafi gert það að verkum að neytendur hafi farið að hamstra eldsneyti hjá smásölum. Nóg sé til af olíu hjá birgjum en það sem hefur vantað eru ökumenn til að koma eldsneytinu á sölustaði.

Boris Johnson forsætisráðherra er nú sagður íhuga að leysa vandann með áætluninni „Escalin“, sem var upprunalega smíðuð ef til þess kæmi að Bretland yfirgæfi Evrópusambandið samingslaust.

Áætlunin felur í sér að hermenn verði kallaðir til og látnir fylla það skarð sem myndast hefur í raðir ökumanna vöruflutningabifreiða. Samkvæmt Guardian mun þó taka allt að þrjár vikur að hrinda áætluninni af stað, þar sem sumir þeirra sem kalla eigi til séu uppteknir við önnur störf.

Fleiri vandamál tengd mögulegum vöruskorti verða rædd á fundum ráðamanna í dag en þeir hafa meðal annars verið varaðir við því að skortur verði á kalkúnum fyrir jól, þar sem hertar reglur um fólksflutninga í kjölfar Brexit hefur gert það að verkum að skortur er á verkafólki til að sinna ýmsum nauðsynlegum störfum í matvælaframleiðslu.


Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×