Erlent

Aftökur og aflimanir hefjast á ný

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Nooruddin Turabi var alræmdur í fyrir hörku í fyrri stjórnartíð talíbana.
Nooruddin Turabi var alræmdur í fyrir hörku í fyrri stjórnartíð talíbana. AP/Felipe Dana

Fangelsismálaráðherra Afganistan, Nooruddin Turabi, segir að aftökur og aflimanir verði teknar upp á nýtt, nú þegar talíbanar eru aftur við stjórn í landinu. Þær verði þó mögulega ekki framkvæmdar fyrir opnum tjöldum.

Í viðtali við Associated Press gaf Turabi lítið fyrir gagnrýni á grimmilegar refsingar talíbana, meðal annars opinberar aftökur, og varaði erlend ríki við því að skipta sér af innanríkismálum Afganistan.

„Allir gagnrýndu okkur fyrir refsingarnar á íþróttavöllunum en við höfum aldrei gagnrýnt lög og viðurlög annarra,“ sagði hann. „Enginn segir okkur hvernig okkar lög eigi að vera. Við fylgjum íslam og munum byggja okkar lög á Kóraninum.“

Turabi var dómsmálaráðherra í fyrri stjórn talíbana og yfir ráðuneyti velsæmismála. Þá sóttu oft hundruð manna opinberar aftökur, þar sem dauðarefsingin var framkvæmd með byssuskoti í höfuðið.

Oft voru það skyldmenni fórnarlambsins sem tóku í gikkinn.

Ræningjar misstu ýmist hönd eða fót.

Að sögn Turabi munu dómarar ákveða refsingu brotamanna og vill hann meina að konur verði þeirra á meðal. Sagði hann „öryggismál“ að aflima seka, þar sem það væri víti til varnaðar fyrir aðra.

Turabi var einn af alræmdari leiðtogum talíbana þegar þeir voru áður við völd en eitt fyrsta verk hans í embætti var að öskra á blaðakonu og skipa henni að yfirgefa herbergi þar sem hún var eina konan. Þá sló hann mann í andlitið sem mótmælti.

Hann var einnig mjög strangur þegar kom að útliti og skipaði öllum embættismönnum að bera vefjarhött og safna skeggi. Þeir sem voru stuttskeggjaðir voru lamdir af fylgismönnum hans.

Guardian fjallar um málið.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.