Erlent

Fjölskyldan afskrifar vonir um að hollenski sjómaðurinn finnist

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Ekkert hefur spurst til skútunnar Laurel sem hélt frá Vestmannaeyjum áleiðis til Grænlands í ágúst.
Ekkert hefur spurst til skútunnar Laurel sem hélt frá Vestmannaeyjum áleiðis til Grænlands í ágúst. LHG

Fjölskylda hollenska karlmannsins sem sigldi frá Vestmannaeyjum áleiðis til Grænlands þann 8. ágúst síðastliðinn telur ólíklegt að hægt verði að upplýsa um afdrif hans. Allri leit að manninum hefur verið hætt.

Greint var frá því íslenskum fjölmiðlum að Landhelgisgæslan og danski heraflinn hafi undanfarnar vikur staðið fyrir alþjóðlegri leit að Hollendingnum. Leitinni var hætt fyrr í mánuðinum.

Fjallað hefur verið um manninn í hollenskum fjölmiðlum í dag þar sem kemur fram að nafn mannsins sé Eugène Eggermont, 63 ára karlmaður frá Haarlem í Hollandi.

Eggermont ætlaði sér að sigla frá Vestmannaeyjum að syðsta hluta Grænlands á tréskútunni Laurel. Segir í frétt NOS í Hollandi að hann hafi ætlað sér að hafa samband við fjölskyldu sína við komuna til Grænlands, sem áætluð var 22. ágúst.

Eftir að ekkert hafði spurst til hans í viku hafði fjölskylda hans samband við hollensku strandgæslunni, sem hafði samband við Landhelgisgæsluna og hófst þá leit að skútunni, auk þess sem að biðlað var til sjófarenda á svæðinu að svipast um eftir skútunni.

Var með sendi sem hægt var að virkja en var ekki virkjaður

Takmarkaður fjarskiptabúnaður var um borð í skútunni og enginn ferilvöktunarbúnaður. Því hefur það reynst íslenskum og dönskum yfirvöldum ómögulegt að ná sambandi við manninn um borð. Í frétt NOS segir þó að Eggermont hafi verið með sendi sem hægt hafi verið að virkja í neyðartilfellum, en hann hafi þó ekki verið virkjaður.

Í frétt NOS segir einnig að Eggermont hafi verið reynslumikill sæfari og mikill ævintýramaður að sögn fjölskyldunnar. Hann hafi siglt mikið við Ísland, Færeyjar, Noreg og Hjaltlandseyjar undanfarin ár.

Telur fjölskyldan ólíklegt að Eggermont finnist á lífi en í frétt NOS er haft eftir talsmanni hennar að „allar líkur séu á því að aldrei verði hægt að upplýsa hvað hafi komið fyrir Eugène“


Tengdar fréttir

Hætta leit að Hollendingnum sem sigldi frá Heima­ey

Ákveðið hefur verið að hætta leit að hollenskum karlmanni sem sigldi frá Vestmannaeyjum áleiðis til Grænlands þann 8. ágúst síðastliðinn. Ekkert hefur spurst til mannsins frá því hann lét úr vör.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.